Sundlaug Dalvíkur 20 ára og íþróttamiðstöð Dalvíkur 4 ára, 2. október 2014

Sundlaug Dalvíkur 20 ára og íþróttamiðstöð Dalvíkur 4 ára, 2. október 2014

Það var 2. október árið 1994 sem sundlaug Dalvíkur var formlega vígð og tekin í notkun. Sextán árum síðar var búið að byggja við sundlaugina glæsilegt íþróttahús og var það vígt formlega sama dag og Héðinsfjarðargöngin, eða 2. október 2010.
Í dag eigum við því hér á Dalvík glæsilega íþróttamiðstöð sem hefur upp á að bjóða fjölbreytta aðstöðu til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa.

Þegar hafist var handa við framkvæmdir á sundlauginni þurfti að sjálfsögðu að taka fyrstu skóflustunguna. Það verkefni tók Hjalti Þorsteinsson að sér en hann og tvíburabróðir hans, Skafti Þorsteinsson voru miklir sundáhugamenn og hefðu orðið hundrað ára í ár.
Í tilefni af aldarafmæli þeirra bræðra gáfu afkomendur þeirra málverk af Sundskála Svarfdæla sl. helgi til minningar um þá bræður. Málverkið hangir nú í íþróttamiðstöðinni öllum til sýnis. Færir íþróttamiðstöðin afkomendum þeirra bræðra þakkir fyrir gjöfina. Málverkið málaði Vignir Hallgrímsson en það var Kristinn Ingi Valsson, formaður íþrótta- og æskulýðsráðs sem veitti því viðtökur.

Í tilefni af afmælinu verður gestum boðið upp á kaffi og góðgæti föstudaginn 3. október (ákveðið var að fresta afmælisveislu þar sem starfsdagur starfsmanna Dalvíkurbyggðar fer fram 2. október). 

Hartanlega til hamingju með afmælið og verið velkomin í íþróttamiðstöðina á Dalvík.


kveðja,
Gísli Rúnar Gylfason
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi