Sumarhúsalóðir í Dalvíkurbyggð

Sumarhúsalóðir í Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð hefur til leigu sumarhúsalóðir í landi Hamars í mynni Svarfaðardals, um það bil 5 km frá Dalvík. Svæðið er samblanda af fallegu mólendi og kjarri ásamt því að vera gjöfult berjaland. Útsýni er til norðurs út Eyjafjörð og dásamlegt að sjá sólina setjast þar í hafið á björtum sumarnóttum. Friðland Svarfdæla er í næsta nágrenni en þar er fuglalíf mjög fjölskrúðugt á vorin auk þess sem hægt er að ganga eftir fræðslustígum um Friðlandið. Hrísatjörn liggur í Friðlandinu en hún er í göngufæri frá sumarhúsabyggðinni.


Dalvíkurbyggð og Tröllaskaginn allur er vaxandi útivistarsvæði. Mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja upp fjölbreyttar gönguleiðir í sveitarfélaginu og ættu áhugasamir að geta fundið gönguleiðir við hæfi. Þar fyrir utan er ýmis afþreying í boði. Yfir sumartímann er hægt að kíkja á hestaleiguna, fara í hvalaskoðun, fuglaskoðun og veiði, kíkja á söfnin okkar og sýningarnar ásamt því að spila golf. Einnig er á Dalvík mjög frambærileg sundlaug. Yfir vetrartímann er skíðasvæðið okkar opið um leið og nægur snjór er í fjallinu. Fjallaskíðamennska er vaxandi á svæðinu auk þess sem hægt er að fara í þyrluskíðun.


Samtals eru 25 sumarhúsalóðir lausar til útleigu, á bilinu 2.000-14.000m2. Lóðarleigan er 1,28% af fasteignamati lóðar og leigutíminn er 50 ár. Greidd eru byggingarleyfis-, gatnagerðar- og tengigjöld. Greiðsluskilmálar eru samkvæm gjaldskrám sveitarfélagsins. Á svæðinu er aðgengi að köldu og heitu vatni ásamt því að möguleiki er á tengingu við ljósleiðara. Tvö opin svæði eru í sumarhúsalandinu en enginn leikvöllur. 

Áhugasamir hafi samband við undirritaðan


Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs
borkur@dalvikurbyggd.is  
Sími 460 4900