Styrkur til endurnýjunar á gluggum Ungó

Styrkur til endurnýjunar á gluggum Ungó

Skömmu fyrir áramót fékk sveitarfélagið tilkynningu frá forsætisráðuneytinu þess efnis að ákveðið hefði verið að veita 10 milljóna króna styrk til endurnýjunar á gluggum Ungó í upprunalega gerð. Minjastofnun annast samningsgerð um verkefnið í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar. Áður hafði komið styrkur til endurbyggingar Ungó frá Minjastofnun að upphæð 500 þúsund krónur.


Þessi styrkveiting er mikið fagnaðarefni og viðurkenning á þessu stóra verkefni. Á síðasta ári hófst vinna við endurbyggingu Ungó og er áformað að útlit hússins verði fært í upprunalega mynd á þremur árum. Áætlanir voru unnar vegna verksins, en ljóst að erfitt er að áætla vegna gamalla húsa og á árinu 2013 fór framkvæmdin mikið fram úr áætlun, enda kom ýmislegt óvænt upp, en þá var þakið endurnýjað og rafmagn að hluta. Í sumar er áformað að fara í veggi að hluta og glugga hússins. Það er ljóst að styrkurinn er mikill og jákvæður stuðningur við þá framkvæmd.


Ungó er hluti af menningaminjum sveitarfélagsins. Húsið var tekið í notkun árið 1930 en það var byggt af ungmennafélaginu, mikið til í sjálfboðavinnu. Ungó hefur gegnt hlutverki íþróttahúss, leikhúss og alhliða menningamiðstöðvar í áratugi þó ýmis fyrrum verkefni hafi nú verið flutt annað. Það er tilhlökkunarefni að fá að sjá Ungó uppgert með glugga eins og var og sérstaklega mikilvægt fyrir ásýnd Dalvíkur þar sem þetta hús er áberandi við akstur í gegnum bæinn.