Styrkir til ýmissa málefna

Styrkir til ýmissa málefna

Á fundi íþrótta,-æskulýðs - og menningarráðs þann 30. desember síðastliðinn voru afhent framlög úr Viðurkenningar - og menningarsjóði íþrótta, -æskulýðs - og menningarráðs. Tvö félög og einn einstaklingur fengu viðurkenningar og styrki eða gjafir. Einnig var skrifað undir samning við Hestamannafélagið Hring þar sem Dalvíkurbyggð hefur ákveðið að styrkja félagið vegna komandi Íslandsmóts árið 2007.

Formaður Leikfélags Dalvíkur fékk afhent fyrir hönd félagsins viðurkenningarskjal og kr. 100.000.- styrk sem er tilkominn sérstaklega vegna uppfærslu LD árið 2005 á barnadagskrá sem samanstóð af völdum atriðum úr verkum Thorbjörns Egners.

Formaður Kvenfélagsins Tilraunar fékk afhent fyrir hönd félagsins viðurkenningarskjal og kr. 100.000.- styrk sem er tilkominn sérstaklega vegna 90 ára afmælissýningar félagsins á hug -og handverki svarfdælskra kvenna á árinu 2005.

Friðrik Ómar Hjörleifsson, tónlistarmaður frá Dalvík, fékk afhent viðkurkenningarskjal ásamt málverki að gjöf eftir listamanninn Vigni Þór Hallgrímsson frá Dalvík vegna tónleika sem Friðrik Ómar hefur verið duglegur að koma að og halda í Dalvíkurbyggða á árinu 2005 og þannig glatt hug og hjörtu með söng sínum.

Þá var skrifað undir samning við Hestamannafélagið Hring vegna komandi Íslandsmóts í hestaíþróttum sem haldið verður í Hringsholti árið 2007. Samningurinn er til 5 ára og hefur Dalvíkurbyggð samþykkt að veita félaginu styrk upp á fjárhæð kr. 2.500.000 á ári, á árunum 2006-2010 vegna ýmissa framkvæmda sem falla til við undirbúning og framkvæmd mótsins.

 

Hérna má sjá styrkþegana ásamt íþrótta,-æskulýðs - og menningarráði Dalvíkurbyggðar.