Styrkir til meistarnáms í vistvænni orkunýtingu

Þrír námsstyrkir eru í boði fyrir komandi námsár við RES - Orkuskólann (RES – the School for Renewable Energy Science). Styrkirnir eru ætlaðir þeim sem hafa lokið B.Sc. námi í verkfræði eða raungreinum eða B.A. prófi í hagfræði og er um að ræða niðurfellingu skólagjalda. Við mat á umsóknum verður tekið mið af námsárangri, starfsreynslu og meðmælum. Umsóknarfrestur fyrir komandi námsár hefur einnig verið framlengdur til 15. desember næstkomandi!

Um er að ræða eins árs alþjóðlegt meistaranám í endurnýjanlegum orkugjöfum og er ætlað nemendum sem lokið hafa B.Sc. námi í verkfræði eða raungreinum (geta sótt um nám á öllum brautum), eða B.A. námi í hagfræði (geta einungis sótt um nám á braut um orkukerfi og orkustjórnun). Námsárið hefst í febrúar 2009 og verður boðið upp á sérhæfingu á fimm námsbrautum: Jarðhitaorku; Efnarafölum og vetnisorku; Lífmassaorku og vistvænu eldsneyti; Vatnsaflsorku; og Orkukerfi og orkustjórnun.

Við RES stunda nú rúmlega þrjátíu nemendur meistaranám á þremur námsbrautum frá tíu þjóðlöndum. Mikil áhersla er lögð á að námið sé alþjóðlegt og fer öll kennsla fram á ensku, auk þess sem stór hluti kennara við skólann kemur frá erlendum rannsóknarháskólum. Meistaranemar skólans vinna rannsóknarverkefni sín í tengslum við íslensk orkufyrirtæki eða erlenda samstarfsháskóla og rannsóknarstofnanir.

RES – Orkuskólinn býður upp á fyrsta flokks aðstöðu í alþjóðlegu námsumhverfi. Skólinn starfar í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, sem útskrifa nemendur skólans með meistarapróf í endurnýjanlegum orkufræðum (e. M.Sc. in Renewable Energy Science).

Nánari upplýsingar eru að finna á skrifstofu RES á Háskólatorgi (HT205) og á slóðinni: www.res.is  

Frétt fengin af www.dagur.net