Stór samningur við þýska síldarframleiðendur

Í sl. viku var undirritaður samningur milli Promens á Dalvík og stórs þýsks síldarsaltanda um sölu á sérhönnuðum 700 lítra kerjum ásamt lokum og tilheyrandi, að andvirði um 150 milljónir króna. Þetta er annar stóri samningurinn sem Promens gerir á stuttum tíma, en nýverið var gerður samningur við nýja og fullkomna síldarverksmiðju í Rússlandi um framleiðslu á um 1000 fiskikerum og lokum.

Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Promens á Dalvík var að vonum ánægður með þennan nýja samning. “Þetta er aðili sem segja má að tilheyri föstum viðskiptavinum hjá okkur. Við höfum unnið talsvert fyrir hann í gegnum tíðina, og m.a. breytt hönnun á kerjum til að laga að hans þörfum, og slíkt kunna Þjóðverjarnir að meta, og ég held að segja megi að þeir séu mjög ánægðir með vörur okkar og þjónustu,” segir Daði.

Daði segir að verkefnastaða Promens á Dalvík sé góð um þessar mundir, því auk áðurnefndra pantana eru mörg verkefndi í gangi. “Við höfum keyrt verksmiðjuna á tveimur vöktum síðan í haust, en í ljósi góðrar verkefnastöðu munum við bæta þriðju vaktinni við, og verksmiðjan verður keyrð allan sólarhringinn frá áramótum.”

Frétt fengin af www.dagur.net