Stofnun Menningar - og náttúrufræðiseturs

Sparisjóður Svarfdæla og Kaupfélag Eyfirðinga hafa ákveðið að hafa, í samstarfi við Dalvíkurbyggð, forystu um stofnun menningar- og náttúrufræðaseturs á Húsabakka í Svarfaðardal og verður rekstur setursins í höndum sérstaks félags.

Á Húsabakka verður komið upp náttúrufræðastofu í minningu Hjartar E. Þórarinssonar á Tjörn, fyrrum stjórnarformanns KEA og stjórnarmanns í Sparisjóði Svarfdæla. Náttúrufræðastofan verði tengd Friðlandi Svarfdæla en Hjörtur hafði frumkvæði að stofnun þess á sínum tíma. Sérstök áhersla verði á plöntu- og fuglalíf. Einnig eru hugmyndir upp um að útbúin verði íbúð fyrir lista- og fræðimenn á Húsabakka.

Yfir sumarið verður starfsemin í líkum dúr og hefur verið. Áhersla verður lögð á að laða að útivistar- og fjallgöngufólk í samvinnu við aðra þá sem vinna að slíkum málum á svæðinu. Skóli Bandalags íslenskra leikfélag fær áfram aðstöðu að Húsabakka sem og masterklassnámskeið í söng og reynt verður að auka slíka menningarstarfsemi.

Haust og vor verður starfrækt skólasetur þar sem skólum á starfssvæði KEA verði boðið að senda tiltekna bekki til umhverfis- og náttúrufræðslu. Auk þess verði kynning á atvinnulífi til sjávar og sveita, á samvinnustarfsemi og starfsemi sparisjóða.

Yfir veturinn verður boðið upp á námskeið um menningartengt efni, gjarnan í tengslum við þá listamenn sem dvelja að Húsabakka. Sérstök heilsutengd námskeið þar sem fólk kæmi til að hlú að heilsu sinni með mataræði og útivist.