Söngvakeppni í félagsmiðstöðinni Pleizinu

Föstudaginn 27. janúar var haldin, í félagsmiðstöðinni Pleizinu í Víkurröst, söngkeppni Samfés, undankeppni meðal nemenda 8. - 10. bekkja í Dalvíkurbyggð. Átta atriði voru skráð til leiks og fluttu allir sín tónlistaratriði með sóma. Um 200 manns gáfu sér tíma til að koma og njóta skemmtunarinnar. Athygli vakti að fimm atriði voru með eigin undirleik en gróska í spilamennsku unglingahljómsveita er mikil í sveitarfélaginu. Snorri Eldjárn sigraði með laginu Patience en lék sjálfur undir á gítar. Í öðru sæti voru Sigurður Bragi , Jóna Bára Jakobsdóttir, Arnór Gunnarsson og Stefán Páll Stefánsson með lagið Trees og í þriðja sæti lenti dúett skipaður Aroni Óskarssyni og Magnúsi Franklín en þeir sungu lagið Obladi oblada við undirleik Arons á gítar.

Keppendur sem og nemendaráð stóðu sig frábærlega við undirbúning og framkvæmd keppninnar sem greinilega nýtur mikilla vinsælda hjá ungum sem öldnum. Að lokinni keppninni var opið hús fyrir unga sem aldna til kl. 23:00 en margir af yngri kynslóðinni nýttu sér það vel og skemmtu sér við tónlist, spil og leiki.

Norðurlandsúrslit Söngkeppni Samfés verða í Ólafsfirði 10. febrúar en þá verða valdir 5 keppendur til að taka þátt í lokakeppninni sem fram fer í Mosfellsbæ helgina 3. - 5. mars.