Söngkeppni félagsmiðstöðvanna á Dalvík

Síðastliðinn laugardag fór fram undan-undan söngkeppni félagsmiðstöðvanna í félagsmiðstöðinni Pleizinu á Dalvík. Sigurvegari keppninnar tekur þátt í söngkeppni félagsmiðstöðvanna á Norðurlandi sem fer fram á Hvammstanga í dag. Alls tóku sjö atriði þátt og voru þau öll mjög fjölbreytt og skemmtileg, allt frá því að vera söngur með undirleik af bandi yfir í stóra hljómsveit. Allir þátttakendur stóðu sig með eindæmum vel og var hljóðfæraleikur til mikillar fyrirmyndar. Sigurvegari keppninnar var Gyða Jóhannesdóttir, nemandi í 9. bekk en hún kom fram ásamt tveimur hljóðfæraleikurum, Arinbirni Guðmundssyni á og Ástþóri Ryan Fowler, og söng frumsamið lag sem heitir Missing peace.

Eins og áður sagði er söngkeppni félagsmiðstöðvanna á Norðurlandi haldin í dag en 16 atriði taka þátt og af þeim komast fimm áfram í lokakeppnina sem haldin verður í Reykjavík 21. febrúar.

Keppnin hefur jafnan verið ein stærsta samkoma fyrir unglinga á Norðurlandi og því mikið tilhlökkunarefni, en reikna má með að um hátt í 500 unglingar mæti á Hvammstanga í tengslum við keppnina. Eftir söngkeppnina verður svo diskótek, auk þess sem innifalið í þátttökugjaldi er heimsókn á Selasetrið á Hvammstanga og öllum er boðið frítt í sund