Sólarfjall

Sólarfjall

Kl 19,20 á laugardagskvöldið 4. júlí lögðu 14 garpar upp í miðnætursólargöngu á Sólarfjall. Farið var frá miðlunartanki hitaveitunnar á Hámundastaðahálsi og gengið eftir hinni stikuðu leið upp í Garnir. Þaðan var haldið áfram upp meðfram Garnarlæk þar sem hann bugðast áfram eins og hann viti ekkert hvert hann eigi að renna. Úr Görnum var svo gengið inn að hálsinum og gengið eftir eggjum allt upp á topp Krossahnjúks í tæplega 1000 m.y.sj.

Þangað vorum við komin stundvíslega kl. 23.00.

Ekki var sól á toppnum er heit golan strauk göngufólkinu um vangan og skýaður himininn var litaður rauðum bjarma miðnætursólarinnar og það rifaði í hana öðru hvoru gegnum skýin.

Haldið var niður um kl. 23.30 og farin sama leið til baka fyrst í stað en síðan sveigt ofaní Ríplaskálina og úr henni sem leið liggur niður í Garnir aftur. Komin vorum við í bílana aftur kl. 01.40 eftir vellukkaða göngu í heitri sumarnóttinni.

Sjá fleiri myndir á www.dalvik.is/gonguvika