Snjóþyngsli í Dalvíkurbyggð

Snjóþyngsli í Dalvíkurbyggð

Miklum snjó hefur kyngt niður víða um land síðustu vikur og hafa íbúar Dalvíkurbyggðar ekki farið varhluta af því. Ekki hefur komið svo mikill snjór í sveitarfélaginu í nokkur ár og er óhætt að segja að íbúar séu að verða þreyttir á þessum ófriði í veðrinu. Fannfergið hefur sett ýmis störf úr skorðum og hefur til dæmis þurft að beita ýmsum brögðum við að koma upp jólaskreytingum þetta árið. Hér til hliðar má sjá Jón Arnar, garðyrkjustjóra, moka sig niður á tengingar fyrir jólaseríur.

Skafla hefur sett víða en á myndinni hér til hliðar má sjá mokstur af þaki Ráðhússins en skaflinn þar var orðinn það stór að ekki þótti vogandi annað en að gera tilraun til að minnka hann.

Miðað við síðustu spár Veðurstofunnar má gera ráð fyrir að veður fari versnandi næstu daga og því líklegt að íbúar sveitarfélagsins þurfi að munda skóflurnar enn eina ferðina.