Skíðin dregin fram

Skíðin dregin fram

Nú þegar snjórinn er kominn kemur skíðalöngunin fram í öllum sem einhvern tíma hafa stigið á skíði og haft gaman af. Margir gerast svo ákafir að þeir pússa rykið af gamla keppnisskapinu og vilja fara að æfa af krafti. En aðrir  vilja fara hægt af stað og með aðstoð. Sveinn Torfason hefur ákveðið vera með skíðakennslu fyrir fullorðna, áhugasamir hafi samband í síma 861 6907. En þessi frétt er af heimasíðu skíðafélagsins.

Old boys and girls

Fréttasnápar www.skidalvik.is hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir að nokkrar gamlar skíðakempur, með skíðadrottninguna Guðbjörgu Stefánsdóttur í broddi fylkingar, hyggist taka plankana fram að nýju og hefja reglubundnar æfingar. Að sögn Einars Hjörleifssonar starfsmanns skíðasvæðisins og gamalreynds skíðajálks þá kom Gugga að máli við hann og kvartaði sáran yfir því að komast aldrei í braut. Einar hafði stöðu sinnar vegna heyrt fleiri gamla keppnismenn kvarta yfir því sama og því fannst honum tilvalið að láta á það reyna hvort ekki væri hægt að safna saman í eins og einn góðan trimmhóp en að öðru leiti vildi hann ekki tjá sig um málið þegar til hans var leitað. Aðrir heimildarmenn skidalvik.is fullyrða hinsvegar að búið sé að ganga frá ráðningu á þjálfara sem muni halda utan um æfingar hópsins en vilja á þessari stundu ekki upplýsa hver það verður. Það er hinsvegar alveg frágengið og ekkert leyndarmál að æfingar verða haldnar einu sinni í viku á föstudögum kl. 18:30 - 20:00 og eru allir velkomnir svo fremi sem þeir séu aldurs vegna ekki gjaldgengir á aðrar æfingar á vegum Skíðafélags Dalvíkur. Að lokum má geta þess að ekki tókst að fá viðbrögð Guggu við þessari frétt en hún neitaði að tjá sig um málið þegar loksins náðist samband við hana nú í kvöld. Fréttasnápar www.skidalvik.is munu áfram fylgjast með þessu máli og reyna að birta fréttir um leið og eitthvað fréttnæmt gerist.

Sveinn Torfason hinn alkunni skíðaþjálfari verður með skíðakennslu fyrir fullorðna og hefjast æfingar líklega 24. janúar. Áhugasamir hafi samband við Svein í síma 861-6907.