Skíðasvæðið opnaði um helgina

Skíðasvæðið opnaði um helgina

Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli opnaði í fyrsta skiptið í vetur, rúmum fimm vikum fyrr en síðasta vetur, en þá var svæðið opnað 27 desember.

Á svæðinu eru tvær lyftur, neðri lyftan er 700 metra löng. Beint í framhaldi af henni er 500 metra löng lyfta, samtals 1.200 metra langar og fallhæðin er 322 metrar. Fyrst um sinn verður neðri lyftan opin. Einn snjótroðari sinnir daglegri troðslu á svæðinu og er annar til taks á álagstímum. Ný lýsing er á svæðinu, um 1.200 metra löng brekka er lýst. Skíðaleiga er á staðnum og  hægt er að fá skíðakennslu um helgar. Gott göngusvæði er í nágrenni skíðasvæðisins, gönguhringur er troðinn daglega ef aðstæður leyfa. Hringurinn er um 2 km langur og liggur um hólana umhverfis Brekkusel, sem er skáli félagsins, og niður að Sundlaug Dalvíkur sem er í um 500 metra fjarlægð frá skíðasvæðinu. Aðstaða fyrir brettafólk er góð, landslagið mjög fjölbreytt og stutt að fara fyrir þá sem vilja ganga á fjöll.

Nánari upplýsingar um skíðasvæðið í Böggvistaðafjalli er að finna hér.