Skammtímavistun fyrir fatlaða tekur til starfa um mitt ár

Dalvíkurbyggð er í byggðasamlagi um málefni fatlaðra með Fjallabyggð og sveitarfélögum á Norðurlandi vestra. Stjórn byggðasamlagsins hefur nú ákveðið að hefja rekstur skammtímavistunar á Dalvík frá og með miðju ári 2012. Þetta úrræði er fyrst og fremst hugsað fyrir íbúa í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð því önnur skammtímavistun er rekin á Sauðárkróki. Notuð verður íbúð í eigu sveitarfélagsins undir starfsemina en launagreiðslur og annar rekstararkostnaður er greiddur af byggðasamlaginu. Reiknað er með að þetta verði vinnustaður sem kallar á a.m.k. fimm stöðugildi.

Skammtímavistun er tímabundin sólarhringsvistun með það að markmiði að veita fólki með fötlun sem býr í foreldrahúsum reglubundna vistun. Skammtímavistun er til hvíldar og tilbreytingar fyrir hinn fatlaða, til að létta álagi af fjölskyldu hans og til þess að gera honum kleift að dvelja sem lengst heima. Einnig er skammtímavistun veitt vegna óvæntra áfalla í fjölskyldu, þ.e. neyðarvistun.

Fjöldi fatlaðra barna í Dalvíkurbyggð er óvenju mikill eins og kennarar á báðum skólastigum hafa staðreynt. Það er kappsmál fyrir Dalvíkurbyggð að veita þeim sem besta þjónustu. Það er því fagnaðarefni að þetta skref skuli nú stigið og mun án efa verða mjög mikilvægt og jákvætt fyrir bæði börnin og aðstandendur þeirra.