Skammtímavistun fyrir börn með fötlun opnar á Dalvík

Skammtímavistun fyrir börn með fötlun opnar á Dalvík

Síðastliðinn fimmtudag, 30. ágúst, opnaði á Dalvík skammtímavistun fyrir börn með fötlun. Starfsemin er ný af nálinni í Dalvíkurbyggð og því stigið stórt framfaraspor í þjónustu í málefnum fatlaðra í sveitarfélaginu. Heimilið kemur til með að hýsa börn af starfssvæði SSNV en aðallega verða þar börn úr Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð.

Fjöldi barna sem nýta sér þessa vistun verða um það bil 10 en hægt verður að sinna þörfum fleiri barna ef þörf krefur. Börnin dvelja saman, mest þrjú í einu, í mislangan tíma í senn á fjögurra vikna tímabili. Á meðan á dvöl þeirra stendur sinna þau sinni daglegu rútínu, fara í skóla, tómstundir, fá vini í heimsókn og svo framvegis.

Búið er að ráða alla starfsmenn að heimilinu en samtals verða þeir níu í 5.4 stöðugildum. Þar af eru þrír þroskaþjálfar. Meðan börnin dvelja í Skógarhólum, en það er nafnið á heimilinu, er þetta þeirra heimili og starfsmennirnir fjölskyldan þeirra.

Það var Eyrún Rafnsdóttir, félagsmálastjóri, sem opnaði Skógarhóla formlega og hélt við  það tilefni ræðu sem birist hérna fyrir neðan.


Kæru gestir, góðan dag og hjartanlega velkomin í Skógarhóla.
Tilefni þess að við komum hér saman er að í dag tekur formlega til starfa á Dalvík skammtímavistun fyrir börn með fötlun.
Fyrir mér og mörgum öðrum er þessi dagur einkar ánægjulegur þar sem að með opnun skammtímavistunar er stigið stórt framfararspor í þjónustu í málefnum fatlaðra í Dalvíkurbyggð.

Þróun í þjónustu í málefnum fatlaðra er hröð og mikil. Þegar ég hóf störf hjá félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar árið 2000 spurðu margir hvað þroskaþjálfi ætti eiginlega að gera á Dalvík, hér væri engin þörf fyrir slíkan.
En sem betur fer hefur þjónustan hjá okkur þróast og eflst, eins og á landsvísu, og nú stöndum við hér í þessu glæsilega húsnæði sem ætlað er að hýsa þessa starfssemi.

Með færslu málaflokks um málefni fatlaðra til sveitarfélaga hófst fljótlega undirbúningur að þessu verkefni. Þjónustusvæði SSNV er stórt, frá Húnaþingi í vestri til Dalvíkurbyggðar í austri. Alls er um að ræða 4 þjónustusvæði, Húnavatnssýslurnar tvær, Skagafjörð og svo Dalvíkurbyggð í samvinnu með Fjallabyggð. Á hverju þjónustusvæði er mikil og góð þjónusta við einstaklinga með fötlun og varð strax ljóst að byrja þyrfti á að auka þjónustutilboð í Dalvíkurbyggð.
En af hverju skammtímavistun? Jú ástæða þess er einföld, á þjónustusvæði Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar eru mörg fötluð börn og því mikilvægt að beina sjónum að þeim í upphafi.
Dalvíkurbyggð mun halda utan úr rekstur heimilisins en með fjármagni úr sameiginlegum sjóðum SSNV.

Fyrstu tvö börnin hefja dvöl sína hjá okkur á morgun en alls eru 10 börn sem munu til að byrja með dvelja hérna í mislangan tíma, á 4 vikna tímabili, og vona ég að þau og fjölskyldur þeirra eigi eftir að njóta dvalarinnar hér.
Búið er að ráða einvala starfslið sem hefur unnið hörðum höndum í vikunni við að gera húsnæðið eins glæsilegt og raun ber vitni og veit ég að börnin og velferð þeirra á eftir að eiga hug þeirra allan. Mig langar einnig að þakka Þórhöllu og Hildi Birnu fyrir undirbúning og kaup á húsbúnaði, Rúnari og Ingvari, eiginmönnum okkar Tótu fyrir alla aðstoðina í húsinu, setja upp ljós og hillur.

Börnin verða aldrei fleiri en þrjú hér í einu nema eitthvað sérstakt komi uppá . Nú þegar hafa komið nokkur börn að skoða húsnæði og eru þau jafnvel byrjuð að raða til í herbergjum eins og þau vilja hafa það. Á meðan börnin dvelja í Skógarhólum, eins og við höfum kosið að kalla staðinn okkar, halda þau sinni annars vanalegu rútínu, fara í skóla og iðka tómstundir, fá vini í heimsókn. Það verður á einhvern hátt flókið fyrir unga fólkið sem kemur úr Fjallabyggð, þeirra rútína riðlast aðeins en þau fá önnur verkefni til að leysa hér á staðnum með starfsmönnum.

Þetta heimili kemur til með að hýsa börn af starfssvæði SSNV en aðallega eru hér börn úr Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð, en að sjálfssögðu er börnum frá öðrum þjónustusvæðum SSNV velkomið að dvelja hér henti það hverju sinni.

Mig langar í lokin að þakka stjórn SSNV, þjónustuhópnum mínum og öðrum starfsmönnum sem starfa undir merkjum SSNV kærlega fyrir hve vel þau tóku á móti okkur og hefur þessi einvala hópur staðið þétt að baki okkur í því hve mikilvægt er að byggja upp þjónustu í heimabyggð og að hvert þjónustusvæði geti státað af góðri þjónustu. Þess vegna erum við hér í dag.

Elsku börn, fjölskyldur og starfsmenn, það er mín einlæga ósk að ykkur eigi öllum eftir að líða vel hér í þessu fallega húsi og að það eigi eftir að óma hlátrarsköll og gleði úr hverjum glugga um ómælda framtíð.
Góðir gestir, ykkur þakka ég fyrir komuna og að þið hafið gefið ykkur tíma til að gleðjast með okkur.

Nú mun taka til máls Jón Óskar, framkvæmdastjóri SSNV, að því loknu ætlar Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri, að fá orðið. Hugsanlega vilja fleiri taka til máls og er það sjálfssagt

Eftir það langar mig að bjóða ykkur að gjöra svo vel og þiggja veitingar sem starfsmenn hér bökuðu og óska ég ykkur svo góðrar heimferðar og heimkomu.

Ræða Eyrúnar Rafnsdóttur, flutt 30. ágúst 2012 við opnun á skammtímavistuninni Skógarhólum á Dalvík.