Sjötíu ár frá Dalvíkurskjálftanum.

Sjötíu ár frá Dalvíkurskjálftanum.
Þann 2. júní n.k. verða liðin 70 ár frá  Dalvíkurskjálftanum mikla 1934. Að því tilefni verður opnuð á Byggðasafninu Hvoli ný sýning helguð skjálftanum. Sýningin samanstendur af ljósmyndum og frásögnum fólks sem upplifði skjálftann. Þá hefur safnið fengið til varðveislu gamlan jarðskjálftamæli frá Veðurstofu Íslands og verður hann  hafður í gangi á opnunartímum.
Byggðasafnið verður opnað laugardaginn 29. maí kl. 11:00 eftir vetrarlokun og gefur þá að líta ýmsa nýbreytni. Jóhannsstofa hefur verið stækkuð og endurskipulögð. Fuglaherbergið hefur sömuleiðis fengið andlitslyftingu, þar hljómar nú fuglasöngur og Friðladi Svarfdæla eru þar gerð nokkur skil. Nú er unnið að endurbótum á Kristjánsstofu. Safninu hafa borist munir sem tengjast lífi og starfi Kristjáns Eldjárns og segir Íris Ólöf safnstjóri byggðasafnsins hugmyndina að færa persónuna og fræðimanninn Kristján Eldjárn nær sýningargestum. Einn gripurinn í Kristjánsstofu verður gamalt  "sekrater"  úr búi afa hans og ömmu, sr. Kristjáns Eldjárns og Petrínu Soffíu Hjörleifsdóttur á Tjörn. Í júní koma tveir forverðir frá Danmörku og Svíþjóð og forverja gripinn.  Það verður gert fyrir opnum dyrum og geta gestir safnsins þá fylgst með og kynnst með því starfi forvarða. Forverðirnir eru að ljúka nám í forvörslu í Svíþjóð og er vinnan á í Hvoli hluti af starfsþjálfun þeirra.
Fleiri viðburðir verða á safninu í Sumar s.s. á 17. júní, alþjóðlega safnadeginum og á Fiskidaginn mikla.