Síðasta ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar, Sólarfjall

Síðasta ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar, Sólarfjall

Þessi ganga var miðnæturganga og hófst klukkan 19:00, og vorum við komin upp á Sólarfjalli um 23:00, böðuð miðnætursólinni. Upphaf ferðar var frá minnismerki um séra Friðrik Friðriksson við bæinn Háls en sumir fóru frá hitaveitutönkum aðeins ofar. Leiðin er stikuð upp í Garnir og var þeim fylgt þangað. Þetta náttúrufyrirbrigði er mikið og merkilegt giljakerfi, sem kallast Garnir. Aðalgilið liggur upp fjallsöxlina, nær samhliða Hálsdal, og klýfur hana að endilöngu. Það er grafið að mestu í fast berg, en þó klettalaust. Frá gilinu liggur drag niður hálsinn, og eftir því rennur Garnalækurinn. Þvert á þetta aðalgil, ganga svo þrjú gil með nokkuð jöfnu millibili til, það neðsta er þó fremur skarð en gil, og loks gengur eitt gil úr aðalgilinu, utantil, myndar S-beygju og kallast Lokugörn. Öll eru gilin mynduð af jaðarvatni ísaldarjöklanna, sem legið hafa í dölunum, og kallast slík gildrög jaðarrásir á máli jarðfræðinnar.
Við gengum upp eftir þessum giljum og upp á hjalla ofan þeirra og áfram upp hálsinn framan í öxl Sólarfjalls eða Krossafjalls eins og það heitir öðru nafni. Þetta er þægileg ganga upp eggina og alla leið á toppinn. Þar blasti við okkur Eyjafjörðurinn í allri sinni dýrð, með perluna Hrísey í öndvegi.

Fleiri myndir úr þessari ferð og öðrum hér.