Selma Rut sigurvegari í söngkeppni Týs

Selma Rut sigurvegari í söngkeppni Týs


Mánudaginn 11. janúar fór fram árleg söngkeppni í Bergi á vegum félagsmiðstöðvarinnar Týs. Þrjú atriði stigu á stokk og kepptu um að fá þátttökurétt á NorðurOrgi sem fer fram á Húsavík 29. janúar næstkomandi. 

Kynnar kvöldins voru Björgvin Máni og Birna Kristín nemendur úr 10. bekk Dalvíkurskóla. Mætingin var mjög góð og voru hátt í 100 manns sem fylgdust með keppninni.

Fyrsta atriði kvöldsins var Selma Rut Guðmundsdóttir sem söng ásamt því að spila á píanó. Lagið sem hún tók heitir Dancing on my own eftir sænsku tónlistarkonuna Robyn. Gríðarlega flottur flutningur hjá Selmu. Næst á svið var Særún Elma Jakobsdóttir sem tók lagið Á annan stað eftir Sölku Sól og gerði Særún það af stakri snilld. Seinust á svið var Ásrún Jana Ásgeirsdóttir og flutti hún lag eftir Valdimar Guðmundsson sem heitir Yfir borgina og greinilegt að hér er á ferð virkilega efnileg söngkona.

Dómnefndarinnar, sem þau Gísli Rúnar Gylfason, Jónína Björk Stefánsdóttir og Elfa Dröfn Stefánsdóttir skipuðu, beið því mjög erfitt verkefni við að velja sigurlag kvöldsins. Á meðan þau báru bækur sínar saman hélt Snorri Eldjárn uppi stuðinu eins og honum einum er lagið.

Þá var komið að hápunkti kvöldsins, að tilnefna sigurvegarann. Selma Rut fékk þá nafnbót og mun taka þátt í NorðurOrgi fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Týs. Þar munu 15 siguratriði víðsvegar af Norðurlandi keppa um fimm laus sæti í lokakeppninni sem fer fram í Laugardalshöll fyrsta laugardaginn í mars. Það er því að miklu að keppa og óskum við Selmu Rut innilega til hamingju með sigurinn.

Viktor Már Jónasson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Týs