Seinni gönguvika í Dalvíkurbyggð - haustlitir og uppskera

Seinni gönguvika í Dalvíkurbyggð - haustlitir og uppskera

Nú fer að líða að seinni gönguviku Dalvíkurbyggðar, en hún hefst með kynningarfund á gönguleiðum í máli og myndum að Rimum í Svarfaðardal föstudaginn 28. ágúst og hefst hann kl. 21.00.


Ástæða er til að benda á nokkur atriði sem fólk þarf að hafa í huga ætli það sér að taka þátt í einstökum viðburðum gönguvikunnar.


Fyrsta þrekraun Gönguvikunnar er Heljuhlaupið sem fer fram laugardaginn 29. ágúst. Farið er með rútu frá Sundlauginni á Dalvík kl. 8.00 og keyrt inn að Heljará í Kolbeinsdal. Ræst er í hlaupið kl. 10.00. Markið er svo eftir að komið er yfir brúna á Skallá í Svarfaðardal, þar sem hlaupið endar. Samtímis hlaupinu er gefinn kostur á að ganga þá sömu leið og hlaupin er. Þá er stoppað eins oft og þurfa þykir og leiðsögumaður er þar með í för.
Þeir sem ætla að taka þátt í þessum viðburði þurfa að tilkynna um þátttöku fyrir fimmtudagskvöldið 27. ágúst til ábyrðarmanns hlaupsins, Friðriks Arnarsonar í síma 466-1554 eða 849-0980 sem gefur einnig nánari upplýsingar. Þeir sem ætla að notfæra sér rútuferðina vestur þurfa að borga 5.000 kr. auk þátttökugjaldsins sem er 2.500 kr. Þeir sem keypt hafa þátttökuarmbandið þurfa aðeins að borga rútugjaldið. Lágmarksfjöldi í þessari ferð er 15 manns.

Kl. 13.00 þennan sama dag er svo annað hlaup, það er Skeiðshlaupið. Hér er um að ræða um það bil 8 km hring sem hlaupinn er (eða genginn, eftir smekk hvers og eins). Hlaupið hefst við bæinn Skeið í Svarfaðardal, þaðan er tekin stefna til fjalls, uppfyrir fjallgirðingu og áfram eftir kindagötum með stefnu á mynni Vatnsdals. Þá er farið upp í dalinn eftir ýtuslóð að vatninu og meðfram því austanverðu að Vatnsdalsánni sem þarf að vaða. Áin er lign og nær manni í hné og auðveld að vaða. Eftir að skórnir eru komnir á sinn stað aftur er hlaupið niður vestan vatns að ánni sem rennur úr vatninu. Þá er aftur vaðið og áin enn í hné. Áfram er hlaupið niður ýtuslóðann alla leið niður á túnin niður undir dalnum og þau hlaupin allt að Skeiði aftur. Á Skeiði er svo boðið upp á einhverja hressingu í formi tes og kaffis.

Sunnudaginn 30. ágúst milli kl. 13:00 til 17:00 verður Uppskeruhátíð haldin á Krossum. Þar verður markaður með afurðir sumarsins, sultur, söft, ber, rabbarbara, kartöflur og hvaðeina sem fólki dettur í hug að selja af framleiðslu sinni. Þeir sem ætla að fá sölubás á staðnum þurfa að panta í síðasta lagi laugardagskvöldið 29. ágúst. Það er Aðalheiður Símonardóttir sem hefur umsjón með og heldur utanum markaðssvæðið í samvinnu við Dýragarðinn á Krossum. Aðalheiður er í síma 466-1060 og 865-8391 og gefur hún allar frekari upplýsingar varðandi markaðinn og tekur við pöntunum á básaplássi.

Tímasetning seinni gönguvikunnar er miðuð við að fólk geti slegið margar flugur í einu höggi. Nú er berjasprettan i hámarki og öll Dalvíkurbyggð blá að berjum. Haustlitirnir eru byrjaðir að fegra fold, og svo eru það göngurnar. Fyrstu göngur í Dalvíkurbyggð eru einmitt þessa sömu viku og Gönguvikan er. Laugardaginn 29. ágúst er gengið í Svarfaðardal vestanverðum frá Bakkadal niður í Sauðdal og helgina eftir, þ.e. 4. til 6. sept. er gengið annarstaðar í Svarfaðardal. Nú gefst fólki sem hefur áhuga á, að taka þátt í þessu ævintýri með gangnamönnum á einstaka svæðum. Þeir sem þess óska geta haft samband við fjallskilastjóra, Þorstein Hólm á Jarðbrú í síma 466-1618 eða 867-5678 sem gefur frekari upplýsingar og setur menn í samband við fjáreigendur á hverjum stað.


Um nánari upplýsingar um gönguvikuna og lýsingar á einstaka ferðum vísum við á heimasíðu gönguviku Dalvíkurbyggðar http://www.dalvik.is/gonguvika  einnig er hægt að hafa samband við leiðsögumennina Kristján Eldjárn Hjartarson í síma 466.1855 / 846-3390 og Önnu Dóru Hermannsdóttum í síma 466-1519 / 894-7788