Samstarfssamningur milli Sæplasts og Háskólans á Akureyri

Á heimasíðu Sæplasts hf. www.saeplast.is kemur fram að fimmtudaginn þriðja mars var skrifað undir samstarfssamning Háskólans á Akureyri og Sæplasts hf.. Samningurinn felur í sér að Sæplast hf. og Háskólinn á Akureyri vinna saman að rannsóknum á þeim sviðum sem tengjast lausnum frá Sæplasti hf., auk þess að leita nýrra lausna sem tengjast geymslu- og flutningatækni í matvælaiðnaði. Sæplast leitar einnig til fræðimanna innan háskólans vegna vissra verkefna sem Háskólinn á Akureyri er ekki nauðsynlega aðili að. Geir A. Gunnlaugsson, forstjóri Sæplasts hf. og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, skrifuðu undir samninginn í verksmiðju Sæplasts á Dalvík.

Sæplast hf. mun veita styrki til ákveðinna verkefna sem tengjast framhaldsnámi á háskólastigi við Háskólann á Akureyri og unnin eru fyrir fyrirtækið. Í slíkum tilfellum er um að ræða meistaraprófsverkefni nemenda við háskólann. Einnig verða í boði styttri BS verkefni og koma leiðbeinendur í verkefnum frá Háskólanum á Akureyri eða Sæplasti hf. Hugmyndir og tillögur að verkefnum koma bæði frá nemendum og leiðbeinendum HA, sem og frá starfsmönnum Sæplasts.

Samningurinn við Háskólann á Akureyri kemur í beinu framhaldi af stofnun Tækniseturs Sæplasts hf. sem staðsett er í verksmiðju fyrirtækisins á Dalvík. Tæknisetrið þjónar öllum verksmiðjum samstæðunnar varðandi hönnun og vöruþróun auk þess að halda utan um vöruþróunarferli fyrirtækisins. Með stofnun Tæknisetursins og samningnum við Háskólann á Akureyri er Sæplast að leggja aukna áherslu á vöruþróun, jafnframt því sem stefnt er að eflingu grunnþekkingar innan fyrirtækisins á sviði efnisfræði plastefna, varma- og burðarþolsfræði.

Auk Þorsteins Gunnarssonar, rekstors HA, komu fimm starfsmenn skólans í heimsókn í Sæplast af þessu tilefni. Að lokinni undirskrift samningsins fræddi Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplast Dalvík, gestina um þróunina í framleiðslu fyrirtækisins og að því loknu fjallaði Hjörleifur Einarsson, prófessor í örverufræði, um gæði og öryggi matvæla og þá snertifleti sem samtarf skólans og Sæplasts skapaði. Að því loknu gekk hópurinn um verksmiðjur Sæplasts.