Samningur um Friðlandið undirritaður

Samningur um Friðlandið undirritaður

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri undirrituðu í Bergi nú á dögunum, nýjan samning um Friðland Svarfdæla. Í samningnum er kveðið á um að Dalvíkurbyggð taki að sér umsjón, framkvæmdir og eftirlit með Friðlandinu í umboði Umhverfisstofnunar.

Friðland svarfdæla var stofnað 8. september 1972 og verður því 40 ára á næsta ári, fyrsta friðland sem stofnað var hér á landi samkvæmt lögum um náttúruvernd sem sett voru 1971. Þar sem þær stofnanir sem á sínum tíma áttu aðild að stjórn friðlandsins, þ.e. Náttúruverndarráð, Svarfaðardalshreppur og Náttúruverndarnefnd Eyjafjarðarsýslu heyra nú allar sögunni til er í samningnum kveðið á um umsjónarnefnd friðlandsins þar sem sæti eiga fulltrúar, Umhverfisstofnunar, Dalvíkurbyggðar, og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Að hálfu Dalvíkurbyggðar sest Helga Íris Ingólfsdóttir í nefndina, Arnór Sigfússon verður fulltrúi AFE en fulltrúi Umhverfisstofnunar hefur enn ekki verið skipaður.

Að lokinni undirritun skoðuðu Kristín Linda og Hjalti J Guðmundsson frá Umhverfisstofnun ásamt nokkrum heimamönnum fuglahús og stíga við Hrísatjörn og litu einnig við á Húsabakka og létu vel af þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið okkur beinlínis hliðhollir á meðan á ferðinni stóð.