SamFestingurinn 2015 helgina 13.-15. mars

Síðastliðinn föstudag fóru 65 unglingar úr Félagsmiðstöðinni Týr á SamFestinginn. SamFestingurinn er stærsti viðburður innan félagsmiðstöðva á landinu og komast yfirleitt færri að en vilja. Hátíðin er tvíþætt; á föstudeginum er ball í Laugardalshöllinni með mörgum frægum hljómsveitum og á laugardeginum er söngkeppni þar sem bestu atriði úr félagsmiðstöðvum landsins stíga á stokk.

Ferðin hjá okkur hófst á planinu við Víkurröst kl 09:00 á föstudagsmorgni. Áætlað var að koma til Reykjavíkur um klukkan 16:00 svo unglingarnir hefðu góðan tíma til að gera sig sæt og fín fyrir ballið. Veðurguðirnir ákváðu hinsvegar að stríða okkur aðeins og þegar komið var í Borgarnes þurftum við að bíða af okkur rokið sem var við Hafnarfjall og á Kjalarnesinu. Biðin var rúmar 4 klukkustundir og var stóra sjoppan í Borgarnesi stútfull af unglingum víðsvegar af Norður- og Vesturlandi sem biðu óþreyjufull eftir að komast af stað. Loksins fór að lægja og um klukkan 18:30 gátum við haldið áfram leið okkar. Við ákváðum að koma við á gististað og fara í fínu fötin og mála okkur á mettíma áður en við fórum á ballið. Klukkan 21:00 vorum við mætt í Laugardalshöll ásamt tæplega 5000 unglingum sem voru á staðnum. Ballinu lauk 23:00, allir komu sér vel fyrir á gististaðnum og skriðu í koju eftir langan dag.

Laugardagurinn hófst klukkan 08:00. Áætlað var að fara í sund í Vesturbæjarlaug um morgunin, en laugin var í göngufæri við gististaðinn. Mikið vonskuveður var í stórborginni á laugardagsmorgninum og þurftum við að ganga í tveimur stórum hópum þessa 400 metra sem voru á milli staða. Eftir sundið nærðum við okkur á NINGS áður en haldið var á söngkeppnina í Laugardalshöll. Keppnin var frábær og mikið af hæfileikaríku ungu fólki sem steig á sviðið og tók lagið fyrir framan nokkur þúsund manns.

Þá var Smáralindin eftir. Eftir keppni og smá hvíld á gististað fórum við í Smára Tívoli. Þar tók við þriggja klukkutíma afþreying í Smára Tívoli þar sem unglingarnir fengu kort sem hægt var að nota í öll tækin, eins oft og hægt var. Við fórum í Lazertag, 7d bíó, sleggjuna, klessubílana og ýmislegt annað þessa þrjá klukkutíma sem við hlupum á milli tækja. Undirritaður svitnaði sennilega mest á að hlaupa á milli tækja enda frábær skemmtun fyrir allan aldur að leika sér þarna!

Fyrir svefnin ákváðum við að kæla okkur niður með Vesturbæjarís sem rann ljúflega niður fyrir svefninn. Á sunnudeginum vöknuðum við snemma, þrifum húsið og lögðum af stað heim eftir frábæra helgi.

Það sem einkenndi ferðina var mikil samstaða innan hópsins og góð hegðun unglinganna alla helgina. Hvar sem við komum var unglingunum hrósað fyrir góða umgengni og kurteisi. Ég er því ótrúlega stoltur af þeirra þátttöku og þakka þeim kærlega fyrir frábæra ferð.

Kveðja
Viktor Már Jónasson
Forstöðumaður Víkurrastar