Safnað fyrir UNICEF á Dalvík

Safnað fyrir UNICEF á Dalvík

Á dögunum tók yngsta stig Dalvíkurskóla, 1.-4. bekkur, þátt í söfnun fyrir UNICEF á Íslandi, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Krakkarnir söfnuðu áheitum hjá foreldrum og nánustu ættingjum, fengu borgaða ákveðna upphæð fyrir hvern hring sem þau hlupu, gengu eða hreyfðu sig á einhvern hátt, á íþróttavellinum okkar á einni klukkustund.

Þessi "UNICEF hreyfing" gekk vonum framar og söfnuðu krakkarnir alls 386.452.-

Margir komu foreldrum sínum mjög á óvart fyrir dugnað, m.a. hljóp einn níu ára drengur 22 hringi, alls 8,8 kílómetra á þessum klukkutíma!

Á skólaslitum í vor var síðan afhent viðurkenningarskjal frá UNICEF fyrir þetta frábæra framlag til starfsemi UNICEF, ásamt upplýsingum um hvað þetta framlag okkar gæti gert fyrir fátæk börn í heiminum og má nefna t.d. að ef það væri notað í menntaverkefni dygði það til að kaupa blýanta og stílabækur fyrir 5153 nemendur, eða töfluspjöld og litakrítar fyrir 7729 nemendur. Ef framlagið væri notað við bólusetningar, dygði það til að útvega 35.132 skammta af bóluefni gegn lömunarveiki.

Krakkarnir voru mjög ánægð og stolt að geta hjálpað öðrum krökkum í heiminum sem eiga bágt, en söfnunarféð fer í alþjóðlegan sjóð UNICEF og nýtist þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Við stefnum að því að endurtaka leikinn næsta vor og fá þá helst allan skólann í lið með okkur.