Sælgætisframleiðsla á Dalvík

Tilraunaframleiðsla er hafin hjá Mola ehf., nýju sælgætisframleiðslufyrirtæki í Dalvíkurbyggð, en fyrirtækið er til húsa í húsnæði í eigu Íslandsfugls. Búið er að gera tilraunir með framleiðslu á nokkrum gerðum af brjóstsykri og sleikipinnum og hefur gengið vel að sögn eigenda fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að framleiðsla fyrirtækisins verði á boðstólum í verslunum eftir mánuð.

Á vef Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar kemur fram að nú sé beðið eftir nýjum umbúðum og tækjabúnaði, koma honum fyrir og ljúka frágangi á húsnæði fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að starfsmenn verði 3-4 þegar allt er komið í fullan gang.