Rússneski sendiherrann á Íslandi í heimsókn í Dalvíkurbyggð

Rússneski sendiherrann á Íslandi, Victor I. Tatarintsev, er nú á Norðurlandi m.a. til að setja nýjan konsúl fyrir Rússland, Pétur Bjarnason, í embætti. Í morgun fór Pétur um Eyjafjörð með sendiherrann sem ekki hafði komið hér norður áður. Þeir heimsóttu m.a. Dalvíkurbyggð, komu við á bæjarskrifstofunni og hittu bæjarstjórann, Svanfríði Jónasdóttur að máli. Sendiherrann lét vel af heimsókn sinni til Akureyrar en hann var m.a. viðstaddur setningu jasshátíðarinnar, Django Jazz Festival, í gærkveldi sem hann naut mjög.