Rafræn könnun vegna golfvallar í fyrirhuguðu deiliskipulagi í fólkvanginum í Böggvisstaðafjalli

Rafræn könnun vegna golfvallar í fyrirhuguðu deiliskipulagi í fólkvanginum í Böggvisstaðafjalli

Frá og með 1. mars og til og með  15. mars geta íbúar, 18 ára og eldri, tekið þátt í rafrænni könnun á heimasíðu Dalvíkurbyggðar. Í þeirri könnun geta íbúar sagt sína skoðun á því hvort gera eigi ráð fyrir 9 holu golfvelli í deiliskipulagi fólkvangsins í Böggvisstaðafjalli. 

Neðst á síðunni er hægt að smella á slóð til að komast inn á könnunina. Vinsamlegast kynnið ykkur upplýsingarnar sem eru hér fyrir neðan áður en það er gert. 

Til upplýsingar

Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð hefur lengi haft hug á að deiliskipuleggja fólkvanginn í Böggvisstaðafjalli eins og gert hefur verið með aðra fólkvanga víða um land. Um langt skeið hefur það legið fyrir að deiliskipuleggja þurfi fólkvanginum svo meðal annars RARIK geti ráðist í það að leggja raflínur í jörðu í gegnum fólkvanginn þar sem nú er loftlína sem og aðrar hugmyndir um framtíðarnýtingu fólkvangsins.

Í mars 2016 sendi Golfklúbburinn Hamar erindi til sveitarfélagsins. GHD óskaði eftir því að á grundvelli skýrslu sem Edwin Roald vann fyrir GHD væri gert ráð fyrir 9 holu golfvelli í deiliskipulagi fólkvangsins ásamt því að þar verði skipulagt heildstætt útivistarsvæði sem þjóna muni öllum íbúum Dalvíkurbyggðar. Einnig óskaði GHD eftir samstarfi við sveitarfélagið um íbúafund til að kynna skýrslu um framtíðar staðsetningu golfvallarins. Byggðaráð ákvað á fundi sínum 15. apríl 2016 að halda slíkan fund í samstarfi við GHD og var sá fundur haldinn 15. september 2016. Jafnframt ákvað byggðaráð á fundi sínum í apríl að hugur íbúa yrði kannaður og á haustdögum 2016 ákvað byggðaráð að könnunin á hug íbúa verði rafræn íbúakönnun.

Forsvarsfólk GHD hefur lýst því yfir að til lengri tíma litið muni golfvöllurinn við Arnarholt ekki þjóna þörfum golfíþróttarinnar sem skildi. Í því sambandi hefur GHD meðal annars bent á mikinn kostnað í nútíð og framtíð vegna bakkavarna til að verja þann hluta vallarins sem næst er Svarfaðardalsá. Einnig hefur GHD bent á, eins og fram kemur í skýrslu Edwins Roald, að kostnaðarsamt verði að endurnýja golfvöllinn við Arnarholt og erfitt að segja til um hvort slík endurnýjun skili því sem þarf vegna staðsetningar hans gagnvart æskulýðsstarfi og plássleysi.

Deiliskipulag er ein gerð skipulagsáætlunar og byggir á Skipulagslögum nr. 123/2010. Skipulagslögin tryggja að deiliskipulagsferlið er lýðræðislegt og felur í sér mikið samráð og aðkomu íbúa til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð þess. Í því ljósi og með vísan í skipulagslögin er ekkert sem hindrar það að sveitarfélagið geri ráð fyrir framtíðar staðsetningu golfíþróttaaðstöðu GHD í deiliskipulagsferli fólkvangsins á sama hátt og gert verði ráð fyrir skíðasvæði, göngu-, skíðagöngu-, hjólreiða- og hestaleiðum, ásamt almennu útivistarsvæði enda hafi almenningur mikla aðkomu að endanlegri gerð deiliskipulagsins. Þrátt fyrir ofangreint þá hefur  sveitarstjórn ákveðið að efna til íbúakönnunar um framtíðarstaðsetningu golfíþróttaaðstöðu GHD áður en hafist er handa við deiliskipulagsferli fólkvangsins.

Tekið skal fram að ef deiliskipulag fólkvangsins gerir ráð fyrir golfíþróttaaðstöðu GHD eða annarri útvistarstarfsemi, eins og t.d. þeirri sem útlistuð er hér að ofan, þá hefur það ekki neinar fjárskuldbindingar í för með fyrir sveitarfélagið og er því aðeins um framtíðar stefnumörkun í skipulagsmálum að ræða.

Taka þátt í könnun

Til að taka þátt í könnun þarf að fara inn á síðuna Mín Dalvíkurbyggð. Þar þurfa þátttakendur að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða með Íslykli. Eftir innskráningu þarf að fara í stiku vinstra megin á Mín Dalvíkurbyggð og velja flipann kannanir og kosningar en hann leiðir inn á könnunina. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta komið í þjónustuver Skrifstofa Dalvíkurbyggðar og fengið aðstoð.