Ráðstafanir vegna kórónaveirunnar Novel (2019-nCoV)

Ráðstafanir vegna kórónaveirunnar Novel (2019-nCoV)

Landspítali og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) vilja að gefnu tilefni minna á leiðbeiningar fyrir almenning til að forðast smit og fækka smitleiðum í þeim tilgangi að draga úr líkum á alvarlegum veikindum. Kórónaveiran Novel (2019-nCoV) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar. Lykilatriði í því að fækka smitleiðum er handhreinsun og hreinlæti kringum augu, nef og munn ásamt öruggri meðhöndlun fæðu. 

Almennar ráðleggingar um hreinlæti gilda og eru afar mikilvægar til að draga úr dreifingu veirunnar:
  • Hreinsið hendur oft og reglulega; notið heitt vatn og sápu - einnig handspritt ef kostur er.
  • Hóstið og hnerrið í krepptan olnboga eða í pappír (eldhúss- eða klósettpappír) og hendið pappírnum strax að notkun lokinni.
  • Gætið hreinlætis kringum augu og öndunarveg; munn og nef.
  • Forðist náið samneyti við fólk sem er með hita eða hósta eða augljós flensueinkenni.
  • Reynið sjálf að komast hjá ferðalögum ef veikindi af þessu tagi eru til staðar.
  • Ef þið eruð með háan hita eða þungan hósta eða finnið fyrir öndunarerfiðleikum leitið þá til læknis þegar í stað og greinið frá nýlegum ferðalögum, hafi einhver verið.
  • Munið að hringja á viðkomandi heilbrigðisstofnun eða í símanúmerið 1700 áður en farið er þangað svo hægt sé að gera ráðstafanir þar til að forðast smit.
  • Forðist alla óvarða snertingu við villt dýr og húsdýr á landsvæðum þar sem kórónaveiran Novel hefur greinst.
  • Á ferðalögum um þekkt smitsvæði kórónaveiru ætti fólk að forðast hráar eða lítið eldaðar dýraafurðir. Það á einkum við um hrátt kjöt, mjólk og innyfli dýra.
  • Mikilvægt er að gæta ítrustu varúðar við eldamennsku á smitsvæðum þar sem kórónaveira hefur greinst.

Opinber viðbrögð á Íslandi miðast við alvarleika hinnar nýju veiru í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga. Undirbúningurinn er samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ásamt því sem náið samstarf er við heilbrigðisstofnanir, löggæslu, samgönguyfirvöld, ráðuneyti og fleiri. Sérstakar leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsfólks hafa verið uppfærðar og gefnar út. Einnig er unnið skipulega að því að uppfræða almenning gegnum upplýsingamiðlun, fjölmiðla, vefsvæði og samfélagsmiðla hlutaðeigandi stofnana.

Meðfylgjandi er grafískt veggspjald sem Landspítali hefur unnið samkvæmt leiðbeiningum WHO.