Píanótónleikar í Dalvíkurkirkju

Næstkomandi föstudagskvöld, 12.júní, munu píanóleikararnir Aladar Rácz og Helga Bryndís Magnúsdóttir stilla saman fingur sína og leika fjórhent í Dalvíkurkirkju. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og miðaverð er 1500 kr. og ókeypis fyrir börn. 


Á efnisskránni eru mjög þekkt verk eftir Gershwin; Rhapsody in blue, en Helga Bryndís lék það um árið ásamt Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Dalvíkurkirkju, Liszt; Ungversk rapsódía nr. 2 , þessi sem Tommi og Jenni slógu í gegn með, og sónata í C-dúr eftir Mozart.


Helgu Bryndísi þarf vart að kynna fyrir Norðlendingum, en Aladár Rácz er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði nám í píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan framhaldsnám við tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Einnig hefur Aladár tekið þátt í mörgum námskeiðum í Evrópu og sjálfur haldið „master class“ námskeið fyrir píanónemendur. Hann hefur leikið á tónleikum víðs vegar um heiminn, leikið inn á plötur og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum, m.a. á Spáni, Ítalíu og í Tékklandi. Frá árinu 1999 hefur Aladár starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur, leikið með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi, s.s. Leikhúskórnum á Akureyri og Kammerkór Austurlands, og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Píanókonsert nr. 1 eftir Ludwig van Beethoven.