Orkumælar frá Frumherja í Dalvíkurbyggð

Frumherji hf og Hitaveita Dalvíkur hafa gert með sér samning um samstarf á svið reksturs orkumæla. Um er að ræða rekstur á mælum og mælabúnaði ásamt þjónustu við notkunarmælingar á veitusvæði Hitaveitunnar.

Með samningnum skuldbindur Frumherji sig til að útvega þá 800 orkuígildismæla sem Hitaveitan þarf á að halda til að sinna orkumælingum. Fyrirtækið er ábyrgt fyrir því að öll mælitæki uppfylli gildandi lög og reglugerðir á samningstímanum.

Sérstök fjarmælieining fylgir hverjum mæli, en slík eining opnar fyrir svokallaðan grenndarálestur orkumælanna. Hann fer þannig fram að fjarmælieiningin sendir frá sér boð sem innihalda upplýsingar um stöðuna á orkumælinum. Boðin eru síðan móttekin af sérstakri tölvu sem ekið er í námunda við mælistaðinn. Þannig komast upplýsingar um stöðuna á mælunum skjótt og örugglega í hendur veitunnar til frekari vinnslu.

Það er Frumherja hf sérstakt ánægjuefni að vera kominn með Hitaveitu Dalvíkur í viðskipti. Ljóst er að með samningnum skipar Dalvíkurbyggð sér í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi hvað varðar orkumælarekstur og notkunarmælingar.

Frétt fengin af vef Frumherja