Olweus verkefnið gegn einelti við utanverðan Eyjafjörð

Olweus verkefnið gegn einelti við utanverðan Eyjafjörð

Olweus verkefnið gegn einelti við utanverðan Eyjafjörð
Fréttatilkynning

Allir grunnskólar við utanverðan Eyjafjörð taka nú þátt í Olweusarverkefninu gegn einelti. Síðustu viku nóvember var spurningalisti um líðan nemenda og einelti í skólanum lagður fyrir alla nemendur í 4. - 10. bekk. Niðurstöður þeirrar fyrirlagnar verða birtar í febrúar á næsta ári.

Allir nemendur skólanna hafa einnig tekið þátt í að búa til slagorð gegn einelti sem verður notað á barmmerki. Hver skóli fyrir sig hefur nú sent frá sér tillögur að slagorðum. Fjögurra manna dómnefnd sem skipuð er einum fulltrúa úr hverju fræðsluráði sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð og einum fulltrúa frá Skóla- og félagsþjónustunni, mun á næstu dögum fara yfir tillögur skólanna og velja það slagorð sem þykir best henta á barmmerki.

Dómnefndinn er svo sannarlega vandi á höndum því slagorðin eiga það öll skilið að komast á barmmerki:

Út með einelti. Inn með vináttu.

Allir eru eins að innan.

Vingjarnleg börn eru eineltisvörn.

Útrýmum einelti.

Allir saman enginn einn.

Einelti er ekkert svalt.

Einelti er eigingjarn leikur.

Eyðum eymd og einelti.

Hver 1 er hluti af heild.

Einelti brýtur, vinátta styrkir.

Einelti er ljótt, stöðvum það skjótt.

Einelti er ekkert cool, af því við verðum bara fúl.

Góður vinur, gulli betri.

Viltu vera vinur? Einelti burt.

Ég vil ekki einelti í mínum skóla.

Enginn er verri en annar.

Saman gegn einelti.

Einelti. NEI, TAKK

Stoppaðu einelti !

Einelti-ógræðandi sár.

Frjáls án eineltis

Enginn slagur okkar hagur (engan slag okkur í hag)

STOPum einelti

Sá sem er góður uppsker gott.

Frjáls félagasamtök við utanverðan Eyjafjörð styrkja útgáfu barmmerkjanna og verður þeim dreift til allra grunnskólabarna á svæðinu.

Húsabakkaskóla á fullveldisdaginn 1. desember 2003

Ingileif Ástvaldsdóttir