Nýr verkefnastjóri í námsveri Símey á Dalvík

Nýr verkefnastjóri í námsveri Símey á Dalvík

Sif Jóhannesdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og vinnur hún auk annarra verkefna að framhaldsfræðslu við utanverðan Eyjafjörð. Svanfríður Inga Jónasdóttir, sem lét af störfum sem verkefnastjóri SÍMEY á Dalvík nýverið, hafði áður yfirumsjón með framhaldsfræðslu SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð. Sif hóf störf hjá SÍMEY 1. febrúar sl.

Sif er Eyfirðingur, hún ólst upp á Þinghóli í Kræklingahlíð og lauk námi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1994. Leiðin lá í þjóðfræði í Háskóla Íslands og síðan starfaði hún í nokkur ár við kennslu í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Árið 2007 hóf Sif störf hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og var áherslan á atvinnuþróunarverkefni í Norður-Þingeyjarsýslu, ekki síst í ferðaþjónustu. Hún tók síðan við forstöðumannsstarfi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga árið 2011, með aðsetur á Húsavík, og gegndi því til sl. hausts.

Námsverið á Dalvík er í sambúð við Tónlistarskólann í Víkurröst. SÍMEY veitir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum alhliða þjónustu þegar kemur að starfsþróun sem og sí- og endurmenntun. Í námsverinu fara fram ýmis námskeið og ráðgjöf. Sif verður til viðtals og ráðgjafar í námsverinu á fimmtudögum frá 13-17. Hægt er að bóka viðtal og senda fyrirspurnir á netfangið sif@simey.is. Það er ekki nauðsynlegt að bóka viðtal eða spjall fyrirfram.