Nýr leik - og grunnskóli tekur til starfa í Dalvíkurbyggð - Árskógarskóli

Nýr leik - og grunnskóli tekur til starfa í Dalvíkurbyggð - Árskógarskóli

Föstudaginn 7. september var nýr leik - og grunnskóli í Dalvíkurbyggð,  Árskógarskóli,  settur formlega í fyrsta sinn. Skólinn varð til við sameiningu leikskólans Leikbæjar og Árskógardeildar Grunnskóla Dalvíkurbyggðar og heitir nú Árskógarskóli. Skólinn er fyrir nemendur á aldrinum 9 mánaða til 12 ára.


Skólinn er Grænfánaskóli en þeim áfanga höfðu fyrri skólastofnanir þegar náð. Einnig starfar skólinn samkvæmt Uppbyggingarstefnunni. Umhverfi skólans býður upp á fjölbreytta náttúru og lögð er áhersla á að tengja nám og leik við þessa paradís. Skólinn gefur sig því út fyrir að vera útiskóli þar sem mörgum markmiðum má ná úti.


Áhersla er lögð á skapandi verkefni í list- og verkgreinum og að upplýsingaöflun og úrvinnsla sé samofin leik og námi. Skólinn leggur áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir og að leikurinn sé lykilþáttur í námi. Áhersla er lögð á fjölbreytta námshópa þar sem einstaklings- og hópamiðað nám er miðað við þroska, áhuga og getu hvers og eins. Þannig gefast tækifæri til að samþætta markmið skólagöngu nemenda frá níu mánaða til tólf ára.


Árskógarskóli á að vera notalegur og uppbyggjandi staður þar sem öllum líður vel, vitsmunalega örvandi og umhverfið þannig að hver og einn einstaklingur fái tækifæri, óháð því hver hann er og hvaðan hann kemur, til þess að gera sem mest úr þeim hæfileikum sem hann býr yfir.