Nýr framkvæmdastjóri Húsabakka ehf.

Auðunn Bjarni Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Húsabakka ehf. úr hópi þrettán umsækjenda og tekur til starfa nú um mánaðamótin.
Auðunn er fæddur 1950 í Borgarnesi en alinn upp á Ólafsvík. Hann  hefur undanfarin tuttugu ár starfað við uppbyggingu húsnæðis -og félagskerfis á Balkanskaga, fyrst á vegum Lutheran World Federation en síðan við eigið fyrirtæki, PEP International. Áður starfaði hann um árabil sem framkvæmdastjóri Markaðsnefndar Landbúnaðarins og þar áður sveitarstjóri, fyrst í Súðavíkurhreppi og síðan í Neshreppi utan Ennis sem síðar varð hluti Snæfellsbæjar.
Auðunn er kvæntur Sigurjónu Högnadóttur og eiga þau þrjú uppkomin börn og sex barnabörn.
Auðunn og Sigurjóna fluttu alkomin heim í fyrra en fannst að sögn þó fullsnemmt að setjast í helgan stein. Þau fóru því að svipast um eftir áhugaverðu ferðatengdu starfi þar sem þau gætu unnið saman og nýtt reynslu sína og tengsl til uppbyggingar ferðaþjónustufyrirtækis. Í fyrrasumar dvöldu þau í húsbíl sínum á tjaldstæði Húsabakka og þurftu ekki að hugsa sig lengi um þegar þau sáu svo í vetur auglýst eftir framkvæmdastjóra gistiþjónustunnar þar.