Ný forvarnarstefna Dalvíkurbyggðar

Síðastliðinn miðvikudag hélt félagsmálasvið ásamt félagsmálaráði fund til að kynna nýja forvarnarstefnu Dalvíkurbyggðar. Á fundinn voru boðaðir samstarfsaðilar sviðsins og formenn íþróttafélaganna í Dalvíkurbyggð.

Ný forvarnarstefna var kynnt og rætt um mikilvægi þess að íþróttafélögin setji sér einhverja stefnu í forvarnarmálum og fylgi eftir. Niðurstaða fundarins var að þessi hópur ætlar að hittast 2x á ári til að bera saman bækur sínar, gefa hvort öðru hugmyndir af forvarnarvinnu og kynna hvað vel hefur gengið. Einnig var lögð mikil áhersla á mikilvægi samvinnu allra aðila sem að skýrslunni koma og hvað forvarnir eru viðamiklar.


Í forvarnarstefnu Dalvíkurbyggðar er lög áhersla á að efla fjölskylduna. Hún miðar að því að forvarnarstarf nái til flestra þeirra þátta sem hafa áhrif á heilbrigt líferni íbúanna og reynt verður, af hálfu sveitarfélagsins, að tryggja jákvætt umhverfi fyrir fjölskyldur. Þannig styrkist undirstaða að heilbrigðu og jákvæðu samfélagi.


Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna. Einnig þjálfarar, leiðbeinendur, kennarar og aðrir þeir sem koma að uppeldi barna. Forvarnir byrja heima og eru foreldrar hvattir til að fylgja börnum sínum vel eftir, t.a.m. eiga góðar stundir með börnum sínum, fylgja útivistarreglum og skapa börnum örugg uppeldisskilyrði. Aðgerðaráætlun með forvarnarstefnu tekur til allra aldurshópa, frá frumbernsku til fullorðinsára.


Með góðu forvarnarstarfi er stefnt að auknu öryggi barna, grunnur lagður að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri sjálfsmynd, foreldra styrktir í uppeldishlutverki sínu og unnið á móti fordómum og kynjamisrétti. Reynt verður að koma til móts við ungmenni svo þau eigi auðveldara með að finna sér farveg í lífinu og falli síður úr námi. Einnig þarf fjölskyldufólk að fá stuðning við að skapa sér viðunandi fjölskyldulíf. Við viljum einnig að Dalvíkurbyggð verði eftirsóttur staður til að eyða ævikvöldinu á.
Félagsþjónustan kynnti nokkur forvarnarverkefni sem unnin hafa verið á síðustu misserum. Sem dæmi um það eru: Börn fyrir börn, Fræðsla um fatlanir og barnavernd, fræðsla í Vinnuskóla, samvinna við lögreglu um t.d. útivistartíma, SAFT fræðsla í samvinnu við Grunnskólann, samvinna við leikbrúðusýningu Blátt áfram, samvinna við Aflið, Fjölmennt og fræðsla fyrir fatlaða, skyndihjálparnámskeið fyrir flesta starfsmenn félagsþjónustu, námskeið um vinnustellingar, fordómafræðsla fyrir starfsmenn, forvarnarvinna í kringum Fiskidaginn mikla, bíósýningar fyrir leikskóla, samvinna við Velferðarsjóð Íslenskra barna, aðgengismál í samfélaginu, samvinna við fræðslusvið vegna fjölmenningarþings o.s.frv.

Forvarnarstefna Dalvíkurbyggðar

Aðgerðaráætlun með forvarnarstefnu