Náttúruperlan Hrísatjörn

Náttúruperlan Hrísatjörn
 
 

Nú er rétti tíminn til að fá sér gönguferð og njóta náttúrunnar í Friðlandi Svarfdæla. Á föstudaginn var á vegum Náttúrusetursins á Húsabakka lokið við að setja upp plöntuskilti meðfam gönguleiðinni um Hrísahöfða. Skiltin eru þrjátíu talsins og á þeim gefur að líta ýmsar skemmtilegar upplýsingar um blóm og jurtir sem finna má meðfram stígnum. Hörður Kristinsson grasafræðingur skrifaði textann og er jafnframt höfundur flestra mynda. Prentsmiðjan Logoflex í Reykjavík prentaði skiltin en Vélvirki á Dalvík smíðaði undirstöður. Fyrirhugað er að setja upp sambærilega skilti um fugla og ýmis kennileiti við stíginn. Sömuleiðis við göngustíginn um friðlandið neðan Húsabakka. Þá stendur til að setja upp stór skilti með kortum og ýmsum fróðleik við upphafspunkt gönguleiðanna við Olís á Dalvík og á Húsabakka. Óhætt er að mæla með því við heimamenn og gesti að nýta sér þennan möguleika til útivistar og náttúruskoðunar. Göngferðin tekur um tvo tíma með fuglaskoðunarstoppum.  Frá Olís liggur leiðin vandlega stikuð út í Hrísahöfða, hálfhring um Hrísatjörn og til baka. Hrísatörn og umhverfi hennar er sannkölluð náttúruperla með óvenju fjölskrúðugu jurta-og fuglalífi í næsta nágrenni Dalvíkur.