Moltu dreift á opin svæði - sparar áburðarkaup

Á vegum Dalvíkurbyggðar er nú verið að gera tilraun með að dreifa moltu á opin svæði í sveitarfélaginu, auk þess sem hrossaskítur hefur verið notaður á nokkrum stöðum. Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri segir að moltan hafi gott áburðargildi, þetta sé innlend vistvæn framleiðsla, spari kaup á tilbúnum áburði og spari þar með gjaldeyri.


Jón Arnar segir að þarna sé um einskonar hringrás að ræða. Lífræni úrgangurinn sem safnað er frá heimilum í sveitarfélaginu fari til moltugerðarinnar, auk timburs, pappírs, sláturúrgangs, fiskúrgangs o.fl. Þessi úrgangur er svo jarðgerður og er nú kominn aftur í formi áburðar.