Minningarathöfn á landi og sjó

Minningarathöfn á landi og sjó

Í gær, þriðjudaginn 9. apríl, var þess minnst að rétt 50 ár eru liðin frá því að ellefu sjómenn fórust í fárviðri við Norðurland, þar af sjö Dalvíkingar í blóma lífsins. Fjölskyldur misstu eiginmenn, feður, syni, frændur og vini í hamfaraveðri sem hjó stór skörð í raðir íbúanna í hér í þorpinu. Þessi atburður er eins og sár í sögu þessa byggðalags. Þetta gerðist í dymbilvikunni 1963 en Dalvíkingarnir voru af vélbátunum Hafþóri og Val.


Haukur Sigvaldason, Dalvíkingur og sonur Sigvalda Stefánssonar, eins þeirra sem fórst í óveðrinu 9. apríl 1963, hafði frumkvæði og var helsti drifkraftur þeirrar minningarathafnar sem fram fór í gær á Dalvík og í Eyjafirði. Dagskráin hófst kl. 13:00 en þá sigldu trébátar úr höfninni á Dalvík og Húsavík áleiðis að minni Eyjafjarðar, norður af Gjögrum yst á Flateyjarskaga. Þar var blómakransi varpað í hafið í minningu þeirra sem fórust og séra Magnús G. Gunnarsson, sóknarprestur á Dalvík flutti athöfn en áhrifarík og góð.


Veður hefur verið gott undanfarna daga á Dalvík en eins og til undirstrika alvöru og vægi þessa atburðar fór að snjóa um leið bautasteinnin var afhjúpaður í Dalvíkurhöfn og á meðan á athöfninni í Dalvíkurkirkju stóð skall saman með leiðinda veðri.

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll,
                          Jón Magnússon