Mín Dalvíkurbyggð – Þjónusta allan sólarhringinn

Mín Dalvíkurbyggð – Þjónusta allan sólarhringinn

Í síðustu viku var opnað fyrir aðgang íbúa Dalvíkurbyggðar og viðskiptavina sveitarfélagsins inn á svokallaða íbúagátt á vef Dalvíkurbyggðar, www.dalvikurbyggd.is , en íbúagáttin er viðbót við þá þjónustu sem þegar er veitt inn á vefsvæðinu Mín Dalvíkurbyggð.

Með tilkomu íbúagáttarinnar hefur Dalvíkurbyggð stigið stórt og mikilvægt skref í rafrænni þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Markmið sveitarfélagsins er skilvirk og ábyrg stjórnsýsla og er íbúagáttinn ein varðan á leiðinni að settu marki hvað varðar enn skilvirkari stjórnsýsluhætti. Segja má að með íbúagáttinni séu íbúar Dalvíkurbyggðar komnir í beint samband við sína Dalvíkurbyggð því nú geta þeir með rafrænum hætti sótt um þjónustu til sveitarfélagsins, fylgst með framgangi sinna mála, skoðað reikninga og greiðslustöðu, komið ábendingum á framfæri og ýmislegt fleira- allt á einum stað.

Sérstök athygli er vakin á því að íbúar og viðskiptavinir geta sótt reikninga og viðskiptastöðu í íbúagáttina.

Þá er bein tenging inn á Mentor fyrir þá sem eiga börn í leik- og grunnskólum, tenging inn á skráningarkerfi fyrir tómstundir og íþróttir barna, ÆskuRækt, sem og það verður tenging inn á upplýsingasíður Hitaveitu Dalvíkur.

Á heimasíðu Dalvíkurbyggðar er hnappurinn Mín Dalvíkurbyggð en með því að smella á hann færist notandi inn á innskráningarsíðu íbúagáttar. Innskráning er með Íslykli frá island.is, en það er samræmt innskráningarkerfi fyrir hið opinbera.

Íbúar Dalvíkurbyggðar og viðskiptavinir sveitarfélagsins eru hvattir til að kynna sér gáttina og hvaða möguleika hún hefur uppá að bjóða. Á flipanum Hjálp eru algengar spurningar og svör. Hægt er að hafa samband við þjónustuver Skrifstofa Dalvíkurbyggðar ef um frekari spurningar er að ræða á dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is , eða í síma 460-4900 milli kl. 8:00 og kl. 16:00 alla virka daga.

Íbúar Dalvíkurbyggðar eru hvattir til að nýta sér þessa nýjung í þjónustu sveitarfélagsins og að hjálpa til við að gera hana enn gagnlegri. Nánari kynning á íbúagáttinni og því sem hún hefur upp á að bjóða verður eftir almenn sumarleyfi.