Mín Dalvíkurbyggð og ÆskuRækt

Dalvíkurbyggð hefur nú innleitt hjá sér íbúagátt sem kallast Mín Dalvíkurbyggð. Með henni eru íbúar og viðskiptavinir Dalvíkurbyggðar komnir í beint samband við sína Dalvíkurbyggð. Í gegnum Mín Dalvíkurbyggð geta íbúar nú meðal annars með rafrænum hætti sótt þjónustu til sveitarfélagsins, fylgst með framgangi sinna mála, skoðað reikninga og greiðslustöðu og komið ábendingum á framfæri. Bein tenging er við Mentor og upplýsingasíður Hitaveitu Dalvíkur, allt á einum stað.


Innskráning í Mín Dalvíkurbyggð fer fram í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins, www.dalvikurbyggd.is  með svokölluðum Íslykli, en Dalvíkurbyggð er fyrst sveitarfélaga til að taka upp þessa innskráningarleið. Íslykillinn er þróaður af Þjóðskrá Íslands og er hugsaður sem framtíðar innskráningarleið hins opinbera.


Eins og áður kom fram er ýmsa þjónustu að sækja inn á Mín Dalvíkurbyggð. ÆskuRækt er þar einn liður en ÆskuRækt heldur utan um skráningar í íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu sem og hvatagreiðslur sem því tengjast. Í vor samþykkti Íþrótta- og æskulýðsráð Dalvíkurbyggðar reglur um hvatagreiðslur til barna- og ungmenna á aldrinum 6 -18 ára í Dalvíkurbyggð. Markmiðið er að gera börnum með lögheimili í Dalvíkurbyggð kleift að taka þátt í frístundastarfi óháð efnahag fjölskyldna. Undir ÆskuRækt geta íbúar nú haldið utan um íþrótta- og tómstundastarf barna sinna ásamt því að geta nýtt sér hvatagreiðslur frá sveitarfélaginu.


Í þjónustuveri Dalvíkurbyggðar, á 1. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur, er tölva sem er til afnota vegna Mín Dalvíkurbyggð fyrir þá íbúa sveitarfélagsins sem hafa ekki aðgang að tölvu eða þurfa aðstoð. Starfsmenn þjónustuvers leiðbeina íbúum og veita upplýsingar um hvernig íbúagáttin virkar.


Með þessu hefur sveitarfélagið stigið stórt skref í bættri þjónustu við íbúa sveitarfélagsins..