Mín Dalvíkurbyggð og ÆskuRækt

Mín Dalvíkurbyggð og ÆskuRækt eru nýjungar í þjónustu sveitarfélagsins við íbúa. Af því tilefni er boðað til kynningarfundar miðvikudaginn 4. september næst komandi. Fundurinn verður haldinn í Víkurröst og hefst kl. 17:00 og áætlað er að hann standi til kl. 18:00.

Á fundinum verður ný íbúagátt, Mín Dalvíkurbyggð, kynnt sem og nýtt fyrirkomulag vegna skráningar í íþróttir og tómstundir og hvatagreiðslur ÆskuRæktar. Einnig verður sagt frá Velferðarsjóði barna.

Hvað er Mín Dalvíkurbyggð?
Í vor var opnað fyrir aðgang íbúa Dalvíkurbyggðar og viðskiptavina sveitarfélagsins inn á svokallaða íbúagátt á vef Dalvíkurbyggðar, Mín Dalvíkurbyggð. Segja má að með íbúagáttinni séu íbúar Dalvíkurbyggðar komnir í beint samband við sína Dalvíkurbyggð því nú geta þeir með rafrænum hætti sótt um þjónustu til sveitarfélagsins, fylgst með framgangi sinna mála, skoðað reikninga og greiðslustöðu, komið ábendingum á framfæri og ýmislegt fleira- allt á einum stað.


Þá er bein tenging inn á Mentor fyrir þá sem eiga börn í leik- og grunnskólum, tenging inn á skráningarkerfi fyrir tómstundir og íþróttir barna, ÆskuRækt, sem og tenging inn á upplýsingasíður Hitaveitu Dalvíkur.

Hvað er ÆskuRækt ?
Í vor samþykkti Íþrótta- og æskulýðsráð Dalvíkurbyggðar reglur um hvatagreiðslur til barna- og ungmenna á aldrinum 6 -18 ára í Dalvíkurbyggð. Markmiðið er að gera börnum með lögheimili í Dalvíkurbyggð kleift að taka þátt í frístundastarfi óháð efnahag fjölskyldna.


Með frístundastarfi er átt við starf íþróttafélaga, leiklistarfélaga, myndlistarfélaga, tónlistarskóla og e.t.v. fleira. Ef vafi leikur á hvort frístundin sé viðurkennd er forsvarsmanni félags bent á að hafa samband við íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.
Skráning í frístundastarf og umsókn um hvatagreiðslur fer fram undir ÆskuRækt sem finna má undir Mín Dalvíkurbyggð. Réttur til niðurgreiðslu hefst ekki fyrr en skráning hefur átt sér stað og er því mikilvægt að kynna sér þessa nýjung sem allra fyrst.