Meistarinn og áhugamaðurinn

Nú er að koma út bókin Meistarinn og áhugamaðurinn eftir þá Friðrik V. Karlsson matreiðslumeistara og Júlíus Júlíusson frá Dalvík. Í fréttatilkynningu frá þeim félögum kemur fram að matreiðslumeistarinn Friðrik V. Karlsson, áhugamaðurinn Júlíus Júlíusson og ljósmyndarinn Finnbogi Marinósson taki höndum saman í áhugaverðri og öðruvísi matreiðslubók þar sem að sjávarfang er viðfangsefnið. Á hverri opnu eru uppskriftir og myndir af réttum þeirra Friðriks V. og Júlíusar úr sama hráefninu. Þannig fá lesendur tvær ólíkar útgáfur, meistarans og áhugamannsins. Val á hráefninu fór þannig fram að hvor þeirra nefndi 10 tegundir af sjávarfangi sem þeir elduðu úr. Í bókinni eru 20 uppskriftir meistarans og 20 uppskriftir áhugamannsins og súpa beggja að auki. Þeir fengu ekki að vita hvernig hinn aðilinn eldaði fyrr en að myndatökum lauk. Finnbogi Marinósson myndaði réttina ásamt stemmningunni í kring um gerð bókarinnar. Friðrik V. rekur ásamt fjölskyldu sinni veitingastaðinn Friðrik V. á Akureyri, Júlíus er Dalvíkingur og m.a. þekktur sem framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, Finnbogi rekur ljósmyndastofuna Dagsljós á Akureyri. Auk uppskriftanna reyna þeir félagar að koma á framfæri þeirri upplifun sem vinnsla bókarinnar var og bera skemmtilegar myndasíður Finnboga þess glöggt vitni. „Við vonumst til þess að lesendur upplifi stemninguna sem þessu fylgdi”

Íslensk bók…norðlensk bók. Bókin er að öllu leiti gerð í héraði. Ásprent-Stíll sér um prentun, Þórhallur Kristjánsson í www.effekt.is hannaði bókina og setti upp og Kimi Records sér um dreifingu bókarinnar. Bókin kemur bæði út á íslensku og ensku. Bókin er einstaklega falleg og eiguleg og hentar afar vel í jólapakkann. Bókin er björt, áhugaverð og skemmtileg með glæsilegum myndum og einstökum uppskriftum. Bókin er prentuð á veglegan pappír og er 112 bls.


Júlíus Júlíusson – 8979748
Finnbogi Marinósson - 8224114
Friðrik V Karlsson – 8925775