Málverk og skissur, leiktjöld og jólaskreytingar - sýning marsmánaðar í Bergi

Málverk og skissur, leiktjöld og jólaskreytingar - sýning marsmánaðar í Bergi

Sýning marsmánaðar í Bergi menningarhúsi er sýning á verkum eftir Steingrím Þorsteinsson (f.22.10.1913, d.19.11.2008).

Sýningin er yfirlit af verkum hans frá árunum 1932-1950 og svo aftur eftir 1981. Síðustu myndirnar málaði Steingrímur þegar hann var kominn fast að níræðu. Enn fremur eru til sýnis ljósrit af nokkrum myndum úr gamalli ,,skissubók“ Steingríms. Myndirnar eru olíumyndir. Fæstar myndirnar bera nöfn og á margar vantar fangamark hans og ártal. Sýningin er sett nokkurn vegin upp í tímaröð og sést glöggt hvernig Steingrímur hefur orðið djarfari í litavali með árunum en seinni myndir hans eru málaðar töluvert sterkari litum en þær fyrri. Náttúran hefur verið honum hugleikin og er honum greinilegur innblástur í sköpunargleðinni.

Steingrímur Þorsteinsson fæddist á Dalvík 22. október 1913, sonur hjónanna Maríu Eðvaldsdóttur frá Nýjabæ og Þorsteins Jónssonar frá Hóli. Sjö ára gamall missir Steingrímur móður sína og elst frá þeim tíma og fram yfir fermingu upp hjá móðursystur sinni, Petrínu Jónsdóttur og manni hennar, Sigurði Þorgilssyni.

Sköpunarþörfin var honum í blóð borin og byrjaði hann snemma að föndra við teikningu og liti en myndlistin var alltaf tómstundariðja hans meðfram öðrum störfum. Árið 1931, þá 18 ára gamall, fór hann til Kaupmannahafnar og innritaðist í iðnskóla þar sem áhersla var lögð á teikningu og málun en þaðan lauk hann sveinsprófi í húsamálun.

Steingrímur tók snemma þátt í leiksýningum á Dalvík jafnframt því að mála leiktjöld. Aftur fór hann til Kaupmannahafnar og þá til að nema leiktjaldamálun og leiklist í leiklistarskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Dvölin í Kaupmannahöfn varð þó styttri en áætlað var vegna heimsstyrjaldarinnar síðari. Eftir heimkomuna tók Steingrímur þátt í fjölda leiksýninga, einkum á Dalvík, en einnig á Húsavík, Akureyri, Ólafsfirði og á Siglufirði og þá ýmist sem leikari, leikstjóri og/eða leiktjaldamálari. Þá er talið að fyrstu jólaskreytingarnar í gluggum gamla kaupfélagsins á Dalvík hafi Steingrímur málað og naut sín þar vel kunnátta hans í leiktjaldamálun. Því miður hefur lítið varðveist af sviðsmyndum hans og jólaskreytingum.

Eftir 1950 gerði Steingrímur  lítið af því að mála enda átti uppstoppun fugla og dýra huga hans allan á þeim tíma. Þau verk hans eru til víða hjá einstaklingum og á söfnum, meðal annars á fuglasafninu í Mývatnssveit og á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík.

Steingrímur kenndi myndmennt, handavinnu, náttúrufræði og fleiri greinar við Dalvíkurskóla á árunum 1955-1981. Eftir að hann hætti kennslu snéri hann sér aftur að myndlistinni og málaði þá töluvert.

Eiginkona Steingríms var Steinunn Sveinbjörnsdóttir (f.17.5.1917, d.17.01.2005) frá Sólgörðum á Dalvík. Þau bjuggu fyrst í Sólgörðum (Hafnarbraut 23) en síðar á Vegamótum. Þau eignuðustu þrjú börn, Jón Trausta (1942), Sveinbjörn (1944) og Maríu (1950)