Lokanir og opnanir í Sundlaug Dalvíkur

Lokun sl. laugardag.
Starfsemi í Sundlaug Dalvíkur fór ekki varhluta af afleiðingum rafmagnsleysis á föstudagskvöldið. Loka varð sundlauginni á laugardag vegna þess að stjórntölva (iðntölva) ræsti sig ekki upp með eðlilegum hætti og ekki var hægt að handstýra dælum og öðrum búnaði. Klórdæling fór úr skorðum, pottar og lón tæmdust og nokkkurn tíma tók að koma lagi á vatnskerfið þegar viðgerð lauk. Viðgerð tók ekki langan tíma en starfsmaður Raftákns á Akureyri kom um hádegi og endurræsti tölvukerfið. Einnig mætti starfsmaður Elektro og fór yfir rafmagnsmál til að tryggja að allt væri með eðlilegum hætti. Þá höfðu starfsmaður sundlaugar og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi unnið fram á nótt við að reyna að koma lagi á mál. Því miður tók það langan tíma að fá allt til að virka eins og venjulega  og því var ekki um annað að ræða en að hafa sundlaugina lokaða á laugardag. Beðist er velvirðingar á því en af skiljanlegum ástæðum var ekki hægt að koma skilaboðum til gesta um það fyrr en á laugardagsmorgun.

Vorlokun og sumaropnun.
Sumaropnun sundlaugar hefst helgina 12. - 13. júní, þá verður opið frá kl. 10:00 til kl. 19:00 um helgar. Það er að hluta til vegna þess að árleg vorlokun verður í byrjun júní. Þá sækir starfsfólk námskeið, þreytir öryggispróf og sinnir þrifum og viðhaldi til undirbúnings fyrir sumarið. Á sama tíma verður farið í viðgerðir í tækjarými og skipt verður um ýmislegt sem varðar samtengingu sundlaugar og íþróttahúss. Einnig verður farið í að færa afgreiðsluna á þann stað sem hún verður á í framtíðinni og í framhaldi tökum við nýjan inngang í notkun. Íþróttasalurinn verður síðan tekinn í notkun um mánaðarmótin september/október. Lokun þessi verður betur auglýst síðar.