Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Lokaathöfn stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Dalvíkurkirkju í gærdag. Þar komu fram átta lesarar og var góður rómur gerður af öllum þátttakendum. Skáld keppninnar voru að þessu sinni Jón Sveinsson (Nonni) og Steinn Steinarr.
Keppnin fer fram á eftirfarandi hátt:
Sérhver skóli sem vill taka þátt í keppninni skráir sig í keppnina og gerist það strax að hausti, oftast nær i september. Þann 16. nóvember ár hvert, á degi íslenskrar tungu, er keppnin formlega sett. Þá leggja kennarar í 7. bekkjum sérstaka rækt við vandaðan upplestur og framsögn í bekkjum. Að lokinni þjálfun er haldin bekkjarhátíð þar sem nemendur lesa upp frásögur og ljóð fyrir samnemendur og foreldra.
Tveir nemendur eru þá valdir sem fulltrúar skólans til að lesa á lokahátíð. Á lokahátíð er lögð mikil áhersla á hátíðlega athöfn með upplestri og tónlistaratriðum. Allir lesarar á lokahátíð fá bókaverðlaun og þrír fremstu fá að auki sérstaka viðurkenningu. Á lokahátíðinni komu saman nemendur frá 7. bekk í Dalvíkurbyggð og Ólafsfirði. Skólarnir skiptu með sér þremur efstu sætunum en úrslit voru eftirfarandi:

1. Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, Grunnskóla Ólafsfjarðar
2. Hafsteinn Máni Guðmundsson, Dalvíkurskóla
3. Signý Jónasdóttir, Árskógarskóla


Myndina tók Hjörleifur Hjartarson

Yfirlýst markmið verkefnisins er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Þótt yfirlýst markmið verkefnisins sé ekki flókið hefur komið í ljós að verkefnið er í raun miklu margslungnara og þjónar fleiri markmiðum. Hér skal þrennt talið.

1. Bætir almennan lesskilning
: Undirbúningur fyrir vandaðan upplestur krefst þess að nemendur æfi sig heima og lesi oft sama textann. Upplestur foreldra fyrir börn sín er fyrsta skrefið á þeirri braut en virðist því miður fá snöggan endi í grunnskólum. Upplestrarkeppninni er ætlað að opna þá braut að nýju.
2. Eflir sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum: Í verkefninu er lögð mikil áhersla á að sýna nemandanum, textanum og móðurmálinu virðingu. Markvisst er sneitt hjá öllum ýkjum, skrumskælum, hávaða og hasar, sem því miður einkennir svo mjög samkomur í grunnskóla hér á landi.
3. Hvetjandi fyrir nemendur með lestrarerfiðleika: Þeir sem eiga undir högg að sækja, og eru jafnvel taldir ólæsir, geta lesið upp og blómstrað sem upplesarar - ef þeir fá að undirbúa sig. Þeir sem eiga við lestarörðugleika að etja hafa ekki síður en aðrir yndi af máli og texta og standa að því leyti jafnfætis öðrum.