Lóðasláttur sumarið 2015

Ágæti íbúi Dalvíkurbyggðar

Fyrir tveimur árum var sú breyting gerð að umsjón vinnuskóla var flutt frá umhverfis- og tæknisviði yfir á fræðslu- og menningarsvið. Við það varð ákveðin breyting á verkefnum vinnuskólans. Vinnuskólinn, sem hafði á undanförnum árum séð um hirðingu lóða fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja, hætti að sinna því verkefni. Síðasta sumar sáu verktakar í Dalvíkurbyggð um sláttinn og greiddi sveitarfélagið niður lóðaslátt fyrir fyrrgreindan hóp. Það mun áfram verða þannig. Þeir einstaklingar sem þurfa á lóðaslætti að halda ráða sjálfir verktaka til að sinna verkefninu. Sveitarfélagið mun þó áfram greiða niður lóðasláttinn, allt að 2.500 krónur fyrir hvern slátt, í allt að fjögur skipti yfir sumarið. Íbúar geta annað hvort komið með reikninginn á bæjarskrifstofuna eftir hvern slátt eða í lok sumars, allt eftir hentugleika hvers og eins. Lóðareigandi greiðir sem sagt verktakanum reikninginn en sækir sjálfur um niðurgreiðslu frá sveitarfélaginu.


Félagsmálaráð samþykkti á 278. fundi sínum reglur um niðurgreiðslu á lóðaslætti og þar kemur fram að niðurgreiðsla á lóðaslætti er fyrir lífeyrisþega sem ekki eru á hinum almenna vinnumarkaði og ekki geta séð um hirðingu lóðar við heimili sitt sjálfir, vegna veikinda eða skertrar getu og búa ekki á heimili með öðrum sem færir eru um það.

Sækja þarf um niðurgreiðslu hjá Arnheiði Hallgrímsdóttur, starfsmanni félagsþjónustu eða í þjónustuveri Dalvíkurbyggðar á eyðublöðum sem þar liggja frammi.

Allar frekari upplýsingar veita starfsmenn félagsþjónustu góðfúslega.
Sími hjá Arnheiði er 460 4914