Lífið eftir göng

Málþing 17. maí í Tjarnarborg

Hefjumst handa strax um framkvæmdir sem miða að því að efla atvinnulíf og mannlíf við utanverðan Eyjafjörð í kjölfar Héðinsfjarðarganga". Þannig byrjaði fundarboð sem Samtökin Landsbyggðin lifi sendi til 20 einstaklinga við utanverðan Eyjafjörð í síðustu viku. Boðað var til fundar á Siglufirði sl. fimmtudagskvöld - til að hefjast handa.

Fundurinn ákvað að stefna að málþingi laugardaginn 17. maí, kl. 14-17 um ,,Lífið eftir göng" eins og það er kallað.  Málþingið verður á Ólafsfirði, n.t.t. í Tjarnarborg. Mynduð var undirbúningsnefnd, sem kom saman til símafundar strax í gær, mánudag.

Stefnt er að því að þetta verði átaksfundur. Það á að efla og ýta úr vör vinnu til að nýta þau tækifæri sem Héðinsfjarðargöngin bjóða upp á.

Ræddar verða hugmyndir sem verið er að vinna að og sem raunhæft er að verði að veruleika, hvort sem er á vegum einkafyrirtækja, sveitarfélaga eða ríkis.  Þetta eru hugmyndir á sviði matvælaiðnaðar og ferðaþjónustu, einnig um framhaldsskóla og fjárfestingasjóð svo eitthvað sé nefnt af því sem byrjað er að ræða.

Leitað verður til eftirtalinna um stuðning við málþingið:

Snorri Pálsson framfarafélag, Landsbyggðin lifi, Framfarafélag Dalvíkurbyggðar, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Sparisjóður Ólafsfjarðar, Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Svarfdæla.

Í framkvæmdanefnd eru: Freyr Antonsson, Hermann Einarsson, Inga Eiríksdóttir, Jón Dýrfjörð, Jón Hrói Finnsson, Karítas Skarphéðinsdóttir Neff og Ragnar Stefánsson.