Leikskólalæsi-Styrkur úr Þróunarsjóði námsgagna

Nýlega fékkst styrkur úr Þróunarsjóði námsgagna til að útbúa námsgögn í þróunarverkefni leikskólanna Leikskólalæsi og styðja þannig enn frekar við verkefnið. Námsgögnin verða birt á netinu svo starfsfólk annarra leikskóla geti nýtt sér þau.


Leikskólalæsi er samstarfsverkefni allra leikskólanna í Dalvíkurbyggð, Krílakots, Leikbæjar og Kátakots svo og fræðslusviðs. Verkefnið tengist Byrjendalæsi sem grunnskólarnir eru að vinna að. Þóra Rósa Geirsdóttir, Jenný Gunnbjörnsdóttir hjá skólaþróunarsviði HA sjá um námskeiðshald og leggja línurnar í verkefninu.


Allt starfsfólk leikskólanna tekur þátt í verkefninu en hver leikskóli er með tengilið við verkefnið. Á Krílakoti er það María Jónsdóttir, á Kátakoti er það Helga Ester Snorradóttir og á Leikbæ er það Hjördís Jóna Bóasardóttir.


Markmið verkefnisins er að efla málþroskann, tungumálsvitundina og bókaáhugann en ekki endilega að kenna börnunum að lesa eftir hefðbundnum leiðum. Verið að leggja góðan grunn fyrir lestrarkennslu grunnskólans. Vissulega eru þó tækifærin gripin þegar börnin sýna lestri og ritun áhuga og þau hvött áfram í lestri og ritun.


• Unnið er með bækur og viðfangsefni þeirra. Bækurnar eru tengdar leikjum, söngvum, teikningum, föndri, útivist og hverju öðru sem leikskólabörnin taka sér fyrir hendur.
• Ákveðnir stafir og orð sem tengjast textunum sem unnið er með eru rædd og hver hljóð þeirra eru. Ekki er áhersla á utanbókarþekkingu á stöfum eingöngu heldur hljóðum stafanna.
• Mikilvægt er að tengja texta bókanna og stafina sem fjallað er um eigin reynsluheimi barnanna.
• Leikskólalæsi er unnið mismunandi eftir aldri barna. Á yngstu deildinni er áhersla á orð, bækur og myndir. Eftir því sem börnin verða eldri verður áherslan meira á stafi, hljóð þeirra, lestur orða o.s.frv.

Hvernig geta foreldrar og aðstandendur ýtt undir málþroskann og leikskólalæsið?

• T.d. með bóklestri heima, ekki nauðsynlegt að lesa alltaf textann heldur fjalla um myndir og þess háttar, staldra við flóknari orð og skýra þau, tengja bækurnar og orðin reynsluheimi barnanna.
• Hægt er að ræða um ákveðna stafi og hljóð, hvaða hljóð eru í hvaða orðum og fleira í þeim dúr.
• Vekja áhuga barnanna á sögum og hvetja þau til að segja sögur, jafnvel skrifa niður sögurnar þeirra.