Leikfélagið á Dalvík sýnir verkið Sambúðarverkir

Þann 17. nóvember nk. mun leikfélag Dalvíkur frumsýna verkið Sambúðarverki en stjórn Leikfélags Dalvíkur ákvað í haust að efna til höfundarsmiðju og aðila til að vinna að sameiginlegu verkefni fyrir félagið til uppfærslu. Höfundarnir fengu allir ákveðinn ramma, umgjörð til að vinna eftir, en annars var viðfangsefnið sem slíkt innan þess ramma gefið frjálst. Höfundar skiluðu verkum sínum til félagsins í lok september og strax þá var farið að vinna með leikstjóra að samþættingu og frágangi fyrir æfingar. Þættirnir eiga það allir sameiginlegt að þeir gerast í raðhúsi á ónefndum stað.

Verk þetta samanstendur af 5 einþáttungum sem allir eru skrifaðir af leikskáldum úr Dalvíkurbyggð. Höfundar einþáttunganna eru 6, en þeir eru Lovísa María Sigurgeirsdóttir, Freyr Antonsson, Júlíus Júlíusson, Ingibjörg Hjartardóttir, Arnar Símonarson og Sólveig Rögnvaldsdóttir.

Leikstjóri uppfærslunnar er Dalvíkingum góðum kunn, en það er Saga Jónsdóttir. Æfingar hafa verið stífar í hartnær 6 vikur. Þórarinn Blöndal hannar leikmynd og Pétur Skarphéðinsson hannar lýsingu. Leikendur eru 14 talsins og margir koma fram í fleiru en einu hlutverki. Þá er gaman að geta þess að margir eru að þreyta frumraun sína á sviðinu í Ungó.

Áætlað er að frumsýna þetta nýja leikverk föstudaginn 17.  nóvember næstkomandi kl. 20.30. Nú er um að gera að skella sér  í leikhús og sjá afrakstur heimamanna á sviði.