Leikfélag Dalvíkur sýnir Sölku Völku í haust

Nú hefur stjórn Leikfélags Dalvíkur ákveðið að næsta uppfærsla á vegum félagsins verði Salka Valka eftir sögu Halldórs Laxness, í leikgerð Ingu Bjarnasonar og fleiri. Inga Bjarnason hefur verið ráðin leikstjóri að verkinu. Inga heimsótti Dalvík á dögunum, skoðaði húsakynni félagsins og aðstæður í Ungó og átti fund með stjórn. Á þessum fundi var gengið til samninga. Stefnt er að því að hefja æfingar á Sölku Völku í lok ágúst og þá vonandi frumsýna verkið upp úr miðjum október. Ljóst er að þetta er viðamikil uppfærsla, um 25 hlutverk eru í sýningunni og nokkur tónlist og söngur. Vel gengur að manna í hlutverk, en þó vantar enn nokkra karlmenn og þá einnig aðstoðarfólk eins og t.d. í búningavinnu og umsjón með miðasölu og fleira.

Leikfélag Dalvíkur hyggst bjóða skólum á Eyjafjarðarsvæðinu sérstakt samstarf þar sem 9. og 10. bekkingum gefst kostur á að sjá þessa uppfærslu í tengslum við íslenskukennslu.