Leifur Breiðfjörð sýnir í Bergi

Leifur Breiðfjörð sýnir í Bergi

Leifur Breiðfjörð hefur opnað sýningu í Bergi menningarhúsi. Þar sýnir hann nýjar vatnslitamyndir ásamt glermálverkum sem hann hefur unnið á allra síðustu árum.


Vatnslitamyndirnar eru til sýnis í sal menningarhússins. Þar sýnir hann 17 verk sem hann skiptir í tvær setteringar; Söngvarar á sviði og Aðrir þátttakendur. Þemað er svo sannarlega viðeigandi fyrir salinn í Bergi en hann er einstaklega heppilegur fyrir tónlistarflutning. Á sviðinu má því meðal annars sjá Kórstjórann, Sópransöngkonuna og Stórsöngvarann en í salnum má til dæmis sjá Ljóðskáldið, Menningarfulltrúann og Gagnrýnandann.


Glerverkin hanga svo til sýnis í gluggunum í björtu og fallegu anddyri Bergs. Náttúran er þátttakandi í sýningunni en birtan úti og litirnir í umhverfinu hafa áhrif á verkin. Þannig eru verkin í raun síbreytileg, eins og lifandi vera. Í anddyrinu má meðal annars sjá verkin Frumkvöðull, Framtíðardraumur og Hugsuður.


Verkin eiga það sameiginlegt að vera djörf og gáskafull. Litirnir eru sterkir en tærir á sama tíma sem veldur því að glerið og vatnsliturinn kallast skemmtilega á í þessum ólíku rýmum og mynda þannig eina sýningarheild sem flæðir í gegnum húsið.


Sýning Leifs Breiðfjörð í Bergi menningarhúsi er einstakur listviðburður sem enginn ætti að láta framhjá sér fara en hún stendur fram til 13. september 2015.


Leifur Breiðfjörð er fæddur í Reykjavík árið 1945. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám í steindri glerlist við Edinburgh College of Art. Hann hefur unnið við myndlist og gerð steindra glerlistaverka síðan 1968.


Leifur hefur gert steind glerlistaverk í fjölmargar opinberar byggingar og kirkjur bæði hér á landi og erlendis. Þekktastu verk hans erlendis er stór steindur gluggi í St. Giles Cathedral í Edinborg og steindur gluggi í Southwark Cathedral í London. Meðal stærri listaverka Leifs hér á landi eru steindir gluggar fyrir Hallgrímskirkju, Bústaðakirkju, Fella- og Hólakirkju, Grafarvogskirkju og Glerárkirkju. Einnig stór glerlistaverk fyrir Flugstöð Leifs Eirikssonar, Þjóðarbókhlöðuna, Hæstarétt Íslands og Grand Hótel Reykjavík.